Innlent

Eiga ekki von á að ráð­herra­málin verði rædd

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi og þingflokksformaður.
Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi og þingflokksformaður. Vísir/Hulda

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir fund stjórnarþingmanna sem fram fer á Þingvöllum í dag hafa verið skipulagðan fyrir nokkrum vikum síðan. Hún á ekki von á því að ráðherramálin verði rædd. 

Í morgun var greint frá því að þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, ætluðu að funda sameiginlega á Þingvöllum í dag. 

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að fundurinn hafi verið skipulagður fyrir nokkrum vikum síðan og því hafi ekki verið boðað til hans vegna afsagnar Bjarna Benediktssonar úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra. 

Hún segir að stærstu mál landsins verði rædd á fundinum, þar á meðal efnahagsmálin. Þá á hún ekki endilega von á því að tilvonandi ráðherraskipti verði rædd. 

Guðlaugur Þór Þórðarson brosti til fréttamanna á leið sinni á ríkisstjórnarfund í morgun.Vísir/Berghildur Erla

„Formennirnir hafa fengið fullt umboð frá þingflokkunum og hafa þetta á sinni könnu. Við treystum þeim til þess,“ segir Ingibjörg í samtali við fréttastofu. 

Fundurinn á Þingvöllum hefst að lokum ríkisstjórnarfundi sem hófst klukkan hálf níu í morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu er síðan ríkisráðsfundur, það er fundur ríkisstjórnarinnar með forseta Íslands, á morgun klukkan 14. Þar mun Bjarni biðjast lausnar úr embætti ráðherra og kemur í framhaldi af því í ljós hvort hann haldi áfram í ríkisstjórninni eða ekki.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, þegar hann gekk úr bifreið sinni inn á ríkisstjórnarfund í morgun. Vísir/Berghildur Erla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×