Erlent

Sak­borningar í morð­máli for­seta­fram­bjóðanda drepnir í fangelsi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Villavicencio segja hann eilífan forseta eftir morðið á honum í ágúst. 
Stuðningsmenn Villavicencio segja hann eilífan forseta eftir morðið á honum í ágúst.  EPA

Mennirnir sex sem grunaðir eru um morðið á ekvadorska forsetaframbjóðandanum Fernando Villavicencio í ágúst eru nú sagðir hafa verið drepnir í fangelsi í Guayaquil í Ekvador, viku fyrir seinni umferð forsetakosninganna. 

Fangelsisyfirvöld í Ekvador greindu frá, en gáfu engar frekari upplýsingar um málið. Mennirnir, sem allir eru kólumbískir ríkisborgarar, voru handteknir kvöldið sem Villavicencio var skotinn til bana á kosningafundi í höfuðborginni Quito. Innanríkisráðherra sagði mennina tengjast skipulagðri glæpastarfsemi.

Guillermo Lasso fráfarandi forseti Ekvador hét hvorki meðvirkni né yfirhylmingu í tengslum við málið í færslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. „Hér mun sannleikurinn koma í ljós,“ sagði hann síðan. 

Frambjóðandinn Fernando Villavicencio var skotinn í höfuðið tveimur vikum fyrir fyrstu umferð forsetakosninganna. Sex menn voru sama kvöld handteknir fyrir verknaðinn. Sjöundi maðurinn, sem einnig var Kólumbíumaður, lést í skotbardaga við lögreglu.

Næsta umferð kosninganna á að fara fram þann 15. október. Þá stendur valið milli lögfræðingsins Luisu González úr vinstriflokknum Pólitísku byltingarhreyfingu borgaranna og Daniels Noboa. Hann er sonur Álvaro Noboa, eiganda bananaræktunar- og útflutningsveldis, sem bauð sig fimm sinnum fram til forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×