Erlent

Rúss­nesk kona hefur verið með nál í heilanum í átta­tíu ár

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Nálin sást á tölvusneiðmynd, sem tekin var á tölvusneiðmyndartæki.
Nálin sást á tölvusneiðmynd, sem tekin var á tölvusneiðmyndartæki. Getty/ JohnnyGraig

Læknar á Sakhalín-eyju í Rússlandi uppgötvuðu þriggja sentímetra nál í heila gamallar konu í gegnum tölvusneiðmynd á dögunum. Nálin er sögð hafa verið í heila konunnar í áttatíu ár. 

Í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum á eyjunni kemur fram að talið sé að konan sé fórnarlamb tilraunar til barnamorðs af völdum foreldra hennar. Tilraunin er sögð hafa átt sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar mikil hungursneyð ríkti í Sovíetríkjunum og algengt var að foreldrar beittu tiltækum brögðum til þess að ráða börnum sínum bana án þess að það kæmist upp. 

Þá kemur fram að nálin liggi í gegnum vinstra hvirfilblað konunnar, en hún hafi ekki haft tilætluð áhrif. Konan hafi raunar aldrei kvartað undan óeðlilegum höfuðverkjum og af nálinni stafi nú í raun engin hætta. Hún sé nú undir viðeigandi lækniseftirliti. 

Læknar konunnar segjast ekki ætla að gera atlögu að því að ná nálinni úr höfði hennar af ótta við að ástand hennar versni við það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×