Enski boltinn

Tíu menn frá Skírisskógi jöfnuðu metin

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nicolás Dominguez skoraði jöfnunarmark heimamanna.
Nicolás Dominguez skoraði jöfnunarmark heimamanna. Vísir/Getty Images

Nottingham Forest og Brentford gerðu 1-1 jafntefli sín á milli í leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir að lenda manni og marki undir tókst Forest að sækja stigið. 

Þrátt fyrir dómaraskipti eftir vafasöm mistök dómarans Darren England í leik Liverpool og Tottenham í gær var VAR dómgæslan enn í aðalhlutverki í leik dagsins. 

Brentford var neitað um vítaspyrnu í vafasömu atviki í fyrri hálfleik. Hjólin fóru svo heldur betur að snúast í seinni hálfleik. 

Matt Turner gaf næstum því mark á 52. mínútu, skömmu síðar fékk Moussa Niakhaté að líta sitt annað gula spjald og var sendur af velli, Brentford tók forystuna með skallamarki Christian Nørgaard eftir aukaspyrnu Mathias Jensen. 

Löngum stundum var eytt í að teikna línur til að skera úr um lögmæti marksins, en það fékk á endanum að standa. Tíu Forest menn jöfnuðu svo leikinn á 65. mínútu eftir góða fyrirgjöf Harry Toffolo sem rataði á Nicolás Dominguez. 

Leikurinn var æsispennandi fram að lokaflauti en fleiri urðu mörkin ekki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×