Erlent

Tvær mann­skæð­ar spreng­ing­ar í Pak­ist­an

Samúel Karl Ólason skrifar
Margir liggja í valnum eftir tvær sprengjuárásir í Pakistan í morgun.
Margir liggja í valnum eftir tvær sprengjuárásir í Pakistan í morgun. AP/Arshad Butt

Að minnsta kosti 52 eru látnir og nærri því sjötíu særðir eftir sprengjuárás í Pakistan í morgun. Sprengja sprakk þar sem fjöldi fólks hafði komið saman til að fagna afmæli spámannsins Múhameðs en árásin er ein sú mannskæðasta á landinu á undanförnum árum.

Árásin var gerð í Balokistan í suðvesturhluta Pakistan. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í héraðinu en enginn hefur enn lýst ábyrgð árásarinnar á hendur sér. AP fréttaveitan segir að verið sé að rannsaka hvort að um sjálfsmorðsárás hafi verið að ræða.

Einnig varð sprenging á svipuðum tíma í Khyber Pakhtunkhwa-héraði. Sú sprenging varð í mosku við lögreglustöð og féllu minnst tveir, á meðan minnst sjö særðust. Tveir sprengjumenn eru sagðir hafa nálgast moskuna. Einn þeirra var skotinn til bana af vörðum en hinum tókst að komast inn og sprengja sig í loft upp.

Um fjörutíu manns voru í moskunni og þar af mest lögregluþjónar. Þak moskunnar hrundi og varð fólk þar undir.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Pakistanskir Talibanar, stærsti vígahópur Pakistans, segjast ekki hafa framið þær. Vígamenn Íslamska ríkisins hafa gert sambærilegar árásir á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×