Erlent

Hundurinn sem beið eiganda síns í 10 ár

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Styttan af Hachiko fyrir utan lestarstöðina í Shibuya í Tókýó.
Styttan af Hachiko fyrir utan lestarstöðina í Shibuya í Tókýó. flickr

Japanir halda upp á 100 ára afmæli frægasta hunds þjóðarinnar í ár, en allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur stytta af hundinum Hachiko staðið fyrir utan lestarstöð í Tókýó.

Fylgdi eiganda sínum frá fyrsta degi

Hachiko fæddist fæddist fyrir 100 árum í Odate, en var fljótlega sendur með lest rúmlega 600 km leið sem gjöf til Hidesaburo Ueno, prófessors í landbúnaðarfræðum við háskólann í Tókýó. Sagan segir að frá fyrsta degi hafi Hachiko fylgt eiganda sínum til lestarstöðvarinnar þegar prófessorinn hélt til vinnu. Hundurinn rölti síðan heim en var svo mættur síðdegis til að taka á móti eiganda sínum.

Beið eiganda síns á hverjum degi á sama stað

Í maí 1925, þegar Hachiko var 2ja ára, fékk prófessor Ueno heilablóðfall í háskólanum og lést. Hachiko kom á lestarstöðina þann dag til að taka á móti eiganda sínum og hann hélt áfram að mæta á lestarstöðina hvern einasta dag upp frá því þar til hann sjálfur gaf upp öndina 10 árum síðar. Í byrjun varð Hachiko fyrir aðkasti, fólk taldi hann vera flækingshund og veittist að honum. Árið 1932 fjallaði dagblað í Tókýó um trúmennsku Hachiko og upp úr því fór almenningur að gefa honum að borða eða senda peninga á lestarstöðina svo hægt væri að veita Hachiko gott atlæti.

Styttur reistar af Hachiko

Árið 1934 var reist stytta af Hachiko við lestarstöðina, hún var síðar brædd og notuð til hergagnaframleiðslu í síðari heimsstyrjöldinni, en árið 1948 var önnur stytta reist af Hachiko sem enn stendur á sínum stað.

Goðsögn og kennsluefni í grunnskólanum

Hachiko er í dag goðsögn í Japan. Hann er talinn hafa verið prýddur öllu því sem einkennir fyrirmyndarborgarann í Japan, ódrepandi tryggð og trúmennsku og öll japönsk börn læra um Hachiko í skólanum.

Hachiko er afar sýnilegur í japönsku þjóðlífi og menningu; tugir bóka og teiknimyndasería hafa verið skrifaðar um hann, sjónvarpsþættir og hann hefur einnig verið gerður ódauðlegur í að minnsta kosti þremur kvikmyndum, Lost in Translation (2003), Babel (2006) og myndin Hachi: A Dog‘s Tale frá árinu 2009, með Richard Gere í aðalhlutverki byggir á ævi Hachiko. Hann er til á lyklakippum, smákökur, sósur, líkjörar og súkkulaði hafa verið nefnd eftir honum svo fátt eitt sé nefnt.

Aldarafmælis verður minnst með margvíslegum hætti víða um Japan á haustmánuðum enda segir Eietsu Sakuraba, sem skrifað hefur bók um ævi Hachiko, í samtali við BBC að minning Hachiko muni lifa með japönsku þjóðinni um ókomna tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×