Tónlist

„Veistu ekki hver ég er?“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Rappdúettinn Eldmóðir var að senda frá sér lagið Stefán Braga.
Rappdúettinn Eldmóðir var að senda frá sér lagið Stefán Braga. Aðsend

Rappsveitin Eldmóðir var að senda frá sér lagið Stefán Braga en lagið fjallar að sögn þeirra um óþolandi týpu á djamminu sem kann sig engan veginn. Stefán Braga var kynnt inn í fasta liðnum Íslenskt og áhugavert á Íslenska listanum á FM957 fyrr í dag.

Meðlimir sveitarinnar eru Óli Hrafn Jónasson, Holy Hrafn, og Þráinn Gunnlaugur Þorsteinsson, Thrilla GTHO.

​​„Flest okkar hafa komist í kynni við einhvern Stefán Braga niðri í bæ þegar vel er farið að líða á kvöldið. Týpan sem hefur fengið sér aðeins of oft í nefið inni á klósetti og er farið að vera sama um allar siðareglur og samþykki samfélagsins. 

Týpan sem króar mann af í hrókasamræðum þegar maður vill bara fá að stökkva upp í næsta lausa leigubíl en ákaft augnaráðið heldur manni límdum á staðnum. Blaðrið er einungis pásað við og við til að sniffa harkalega og gleyma þræðinum, segja strákarnir.“

Lagið er að sögn Óla Hrafns og Þráins Gunnlaugs töluvert ólíkt fyrri útgáfu bandsins, plötunni Bálsýnir sem kom út fyrr í sumar.

„Stefán Braga er meira í átt við það sem gæti hljómað á dansgólfinu á skemmtistað á hápunkti kvöldsins. Drífandi dansvæni takturinn undirstrikar lykilsetningu lagsins: „Veistu ekki hver ég er?“ 

Meðlimir sveitarinnar vilja að auki biðja alla Stefán Braga landsins innilega afsökunar á nafnavalinu.“

Hér má hlusta á lagið:

Klippa: Eldmóðir - Stefán Braga

Patrik Atlason trónir annars staðfastur á toppi Íslenska listans á FM fjórðu vikuna í röð með lagið Skína og Miley Cyrus stekkur upp í annað sæti með lagið Jaded. Þá falla strákarnir í Iceguys niður um eitt sæti á milli vikna og skipa þriðja sætið með lagið Rúlletta.

Íslenski listinn er fluttur alla laugardaga á milli klukkan 14:00 og 16:00.

Lög Íslenska listans:

Íslenski listinn á Spotify:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×