Íslenski boltinn

„Höfðum það í höndum okkar að ná öðru sætinu en réðum ekki við pressuna“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nik Chamberlain

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var svekktur á svip 0-2 tap á heimavelli gegn Þór/KA. Þróttur missti þar af gullnu tækifæri til að koma sér upp fyrir Breiðablik og blanda sér í baráttuna um Evrópusætið.

„Þór/KA voru bara betri en við í dag, þær komu inn í þennan leik af meiri ákefð og orku. Við mættum þeim ekki almennilega fyrr en við lentum undir. Fyrri hálfleikurinn var góður, bæði lið áttu nokkur góð tækifæri og héldu ágætlega í boltann. En við vorum langt frá okkar besta í dag“ sagði Nik strax að leik loknum.

Með sigri í dag hefði Þróttur farið upp fyrir Breiðablik og jafnað Stjörnuna að stigum í 2./3. sæti deildarinnar.

„Það er mest svekkjandi við þetta. Við höfðum það í höndum okkar að ná öðru sætinu en réðum ekki við pressuna, Þór/KA á samt allt hrós skilið, þær voru betri en við í dag.“

Þróttur hefur spilað vel í úrslitakeppninni og náð í tvo góða sigra gegn Breiðablik og FH. Þrátt fyrir það virtist liðið ekki með mikið sjálfstraust á boltanum í dag.

„Sammála því, mér fannst við byrja þennan leik vel en svo gerðum við nokkur klaufaleg mistök með boltann og náðum okkur ekki almennilega á strik. Maður bjóst við að sjá aðeins meira sjálfstraust í liðinu, sérstaklega á heimavelli, en formið okkar hefur reyndar ekki verið nógu gott á heimavelli í sumar.“

Nú tekur við tæplega tveggja vikna landsleikjahlé áður en síðustu tveir leikir deildarinnar fara fram. Þar mætir Þróttur Íslandsmeisturum Vals og Stjörnunni sem situr í 2. sætinu.

„Tveir erfiðir leikir, alveg eins og síðustu leikir hafa verið. Allir leikir eru barátta, sem er gott, þannig að ég býst ekki við neinni breytingu á því og vonandi getum við endað þetta vel“ sagði Nik að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×