Fótbolti

Dagur og félagar í öðru sæti eftir dramatískan endurkomusigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagur Dan spilaði allan leikinn fyrir Orlando City.
Dagur Dan spilaði allan leikinn fyrir Orlando City. Vísir/Getty

Dagur Dan Þórhallsson og félagar hans í Orlando City unnu dramatískan 4-3 endurkomusigur gegn Columbus Crew í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt.

Það voru gestirnir í Columbus Crew sem tóku forystuna strax á 16. mínútu leiksins og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins.

Heimamenn jöfnuðu metin strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks, en Columbus Crew svaraði með tveimur mörkum á 56. og 68. mínútu og staðan því orðin 1-3 þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Facundo Torres minnkaði muninn fyrir Orlando stuttu síðar áður en Ramiro Enrique jafnaði metin þegar um fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Enrique reyndist svo hetja Orlando þegar hann tryggði liðinu sigurinn með marki á sjöundu mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því 4-3 sigur Orlando sem situr í öðru sæti Austurdeildar MLS-deildarinnar með 50 stig eftir 28 leiki, átta stigum á eftir FC Cincinnati sem trónir á toppnum.

Þá mættust Houston Dynamo og St. Louis City í Íslendingaslag í nótt í leik sem endaði með 1-1 jafntefli. Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn á sem varamaður fyrir St. Louis eftir klukkutíma leik, en Þorleifur Úlfarsson var ónotaður varamaður hjá Houston.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×