Innlent

Hvalur 8 og Hvalur 9 báðir á landleið með nýveidda hvali

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvalur 8 er væntanlegur í hvalstöðina í nótt með einn hval.
Hvalur 8 er væntanlegur í hvalstöðina í nótt með einn hval. Egill Aðalsteinsson

Báðir hvalbátarnir eru núna á leið til hafnar í Hvalfirði með nýveidda hvali, sem skotnir voru í dag. Hvalur 8 er væntanlegur að bryggju í hvalstöðinni í nótt með eina langreyði. Hvalur 9 er svo væntanlegur þangað í fyrramálið með tvær langreyðar. Eftir því sem fréttastofa kemst næst veiddi áhöfn Hvals 8 sinn hval fyrir hádegi.

Þar með hafa alls fjórtán langreyðar veiðst frá því hvalveiðarnar hófust í síðustu viku. Fyrstu þrír hvalir vertíðarinnar voru skotnir fimmtudaginn 7. september. Næstu fjórir veiddust síðastliðinn sunnudag og aðrir fjórir á þriðjudag.

Matvælastofnun tilkynnti fyrr í dag að hún hefði ákveðið að stöðva tímabundið veiðar Hvals 8 og má því búast við að hann sigli ekki strax aftur á miðin. Þá gæti einnig orðið hlé á veiðum Hvals 9 þar sem veðurspá laugardagsins gerir ráð fyrir suðaustan slagviðri.


Tengdar fréttir

Hvalveiðimenn komnir með ellefu langreyðar

Hörkugangur er í hvalveiðunum og veiddust fjórar langreyðar í gær. Áhafnir hvalbátanna beggja hafa núna skotið alls ellefu dýr á sex dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×