Erlent

Náðu að draga Ocean Explor­er af strand­stað

Atli Ísleifsson skrifar
Ocean Explorer var smíðað árið 2021 og er í eigu ástralska fyrirtækisins Aurora Expeditions.
Ocean Explorer var smíðað árið 2021 og er í eigu ástralska fyrirtækisins Aurora Expeditions. Arktisk kommando

Tarajoq, rannsóknarskip grænlensku umhverfisstofnunarinnar, tókst að draga skemmtiferðaskipið Ocean Explorer af strandstað í Alpafirði á austurströnd Grænlands um hádegisbil í dag.

Þetta kemur fram í færslu norðurslóðadeildar danska hersins á Facebook, en skemmtiferðaskipið strandaði við austurströnd Grænlands síðastliðinn mánudag.

Alls eru 206 um borð í skipinu og hafa verið föst um borð frá því að skipið strandaði. Enginn slasaðist og ku skipið ekki vera skemmt.

Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, var í biðstöðu um tíma fyrr í vikunni vegna strandsins en björgunarmiðstöðin í Nuuk tilkynnti þeim síðdegis í fyrradag að ekki væri þörf á aðstoð þeirra.

Ocean Explorer var smíðað árið 2021 og er í eigu ástralska fyrirtækisins Aurora Expeditions. Skipið hefur nokkrum sinnum siglt til Íslands, síðast í júlí. Það er 104 metrar á lengd, átján metrar á breidd og siglir undir fána Bahamaeyja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×