Enski boltinn

Lét gamminn geisa eftir leik og for­dæmdi „fá­rán­lega“ með­ferð á Maguire

Aron Guðmundsson skrifar
Harry Maguire, leikmaður enska landsliðsins og Manchester United
Harry Maguire, leikmaður enska landsliðsins og Manchester United Vísir/Getty

Gareth Sout­hgate, lands­liðs­þjálfari enska lands­liðsins í fót­bolta, er allt annað en sáttur með þá um­ræðu sem hefur verið og er í gangi í kringum enska lands­liðsmið­vörðinn Harry Maguire.

Maguire var á meðal vara­manna Eng­lands í gær í vin­áttu­leik liðsins gegn ná­grönnunum í skoska lands­liðinu en hann kom inn í hálf­leik og skoraði sjálfs­mark í 3-1 sigri Eng­lendinga.

Sam­kvæmt frétt Sky Sports fögnuðu stuðnings­menn Skota, hæðnis­lega, hverri heppnaðri sendingu sem Maguire átti. Maguire lenti í svipaðri upp­á­komu í leik með Manchester United gegn Arsenal í ensku úr­vals­deildinni á dögunum og var Sout­hgate, í við­tali eftir leik í gær, spurður á­lits um um­ræðuna í kringum Maguire.

„Hvað stuðnings­menn Skot­lands varðar þá skil ég þetta alveg, ég get ekki kvartað undan því að þeir láti sér detta svona í hug en þetta er þó af­leiðing af fá­rán­legri með­ferð sem Maguire hefur nú fengið yfir lengri tíma,“ sagði Sout­hgate í við­tali eftir leik.

Hann telur að stuðnings­menn enska lands­liðsins hafi áttað sig á stöðunni.

„Þetta er al­gjör hneisa. Enginn leik­maður hefur fengið þá með­höndlun sem hann er að fá, ekki bara frá skoskum stuðnings­mönnum, heldur einnig frá lýs­endum, sér­fræðingum og fleirum. Þeir hafa búið til eitt­hvað sem ég hef bara aldrei séð áður. Maguire hefur verið klettur fyrir enska lands­liðið og hluti af sigur­sælasta enska lands­liði síðustu ára­tugina.“

Maguire var keyptur til Manchester United frá Leicester á rúmar 89 milljónir punda eftir að hafa heillað hjá Leicester City.

Hjá Manchester United hefur honum ekki tekist að halda góðu gengi gangandi og hefur oft á tíðum fengið að heyra það frá stuðnings­mönnum sem og knatt­spyrnu­sér­fræðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×