Neytendur

Enn sektar Neyt­enda­stofa vegna full­yrðinga um CBD-olíu

Atli Ísleifsson skrifar
Adotta CBD Reykjavík ehf. fær 100 þúsund króna vegna fullyrðinganna.
Adotta CBD Reykjavík ehf. fær 100 þúsund króna vegna fullyrðinganna. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur ákveðið að sekta Adotta CBD Reykjavík ehf. um 100 þúsund króna vegna brota í tengslum við fullyrðingar félagsins um lyfjavirkni snyrtivara sem innihalda CBD og eru seldar undir vörumerkinu „CBD RVK“.

Neytendastofa tilkynnti á dögunum að Healing Iceland ehf. hefði einnig verið sektað um 100 þúsund krónur vegna fullyrðinga um lyfjavirkni snyrtivara sem innihalda CBD og seldar eru á vefsíðu félagsins undir vörumerkinu „Sproti“. Brotin voru metin alvarleg auk þess að stríða gegn góðum viðskiptaháttum.

Á vef Neytendastofu segir að mál Adotta CBD Reykjavík hafi lotið bæði að fullyrðingum um lyfjavirkni snyrtivara sem auglýstar voru á útvarpsmiðlum RÚV sem og fullyrðingum sem birtust á vefsíðu félagsins, cbdrvk.is.

„Undir rekstri málsins hélt Adotta CBD Reykjavík því fram að ekki væri um fullyrðingar að ræða samkvæmt skilgreiningu þess orðs ásamt því að haldið var fram að umræddar vörur hefðu margvísleg áhrif til bóta fyrir notandann. Því væri ljóst að vörurnar bæti svefn og dragi úr verkjum. Á síðari stigum málsins kom fram að umræddar útvarpsauglýsingar hefðu verið settar fram í góðri trú. Verði niðurstaða Neytendastofu sú að nálgun og orðalag sé ekki í lagi verði hætt að notast við umræddar útvarpsauglýsingar. Þá hafi félagið tekið út af vefsíðu sinni fullyrðingar um virkni vara félagsins á taugakerfið.

Taldi Neytendastofa ljóst að strangar sönnunarkröfur gildi um fullyrðingar sem eiga við um áhrif efnis á heilsu manna og mikilvægt að heimildir þær sem viðkomandi seljandi vísi til séu afdráttarlausar og áreiðanlegar um raunveruleg áhrif efnisins á heilsu. Það sé líklegt að neytendur stóli á birtar upplýsingar að þessu leyti og byggi kauphegðun sína á þeim og væru fullyrðingarnar því líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir félagsins væru því til þess fallnir að valda því að hinn almenni neytandi sem fullyrðingarnar beinast að taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið.

Taldi stofnunin hæfilegt að sekta félagið um 100.000 kr. vegna brota sinna,“ segir á vef Neytendastofu.


Tengdar fréttir

Fá sekt vegna full­yrðinga um CBD-olíuna Sprota

Neytendastofa hefur ákveðið að sekta Healing Iceland ehf. um 100 þúsund krónur vegna fullyrðinga um lyfjavirkni snyrtivara sem innihalda CBD og eru seldar á vefsíðu félagsins undir vörumerkinu „Sproti“. Brotin eru metin alvarleg auk þess að stríða gegn góðum viðskiptaháttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×