Fótbolti

Ráku þjálfarann eftir tapið á Laugar­dals­velli og leik­menn töluðu ekki við fjöl­miðla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Edin Džeko er skærasta stjarna Bosníu og Hersegóvínu.
Edin Džeko er skærasta stjarna Bosníu og Hersegóvínu. Vísir/Hulda Margrét

Bosnía og Hersegóvína tók tapið á Laugardalsvelli í gær, mánudag, mjög nærri sér. Þjálfara liðsins var látinn taka poka sinn eftir aðeins 30 daga í starfi og þá ræddi enginn leikmaður liðsins við fjölmiðla á leið sinni út af Laugardalsvelli.

Ísland lagði Bosníu og Hersegóvínu með einu marki gegn engu í leik liðanna í undankeppni EM 2024 á mánudagskvöld. Þó vonir Íslands um að komast upp úr riðlinum þá áttu gestirnir enn von, sú von varð að engu með tapi á Laugardalsvelli.

Strax eftir leik bárust þau tíðindi að Meho Kodro, þjálfari liðsins á Laugardalsvelli, hefði verið rekinn. Eru þetta önnur þjálfaraskipti knattspyrnusambandsins á stuttum tíma en Faruk Hadžibegić var við stjórnvölin þegar Bosnía og Hersegóvína vann öruggan 3-0 sigur á Íslandi í upphafi undankeppninnar.

Vico Zeljković, forseti knattspyrnusambands landsins, var ekki lengi að tjá sig eftir leik og sagði að það yrði eitthvað að breytast. Í stað þess að horfa í eigin barm virðist hann hafa ákveðið að skipta um þjálfara enn á ný.

Hvort leikmenn Bosníu og Hersegóvínu voru að mótmæla brottrekstrinum eða höfðu einfaldlega ekki áhuga á að ræða við fjölmiðla eftir leik er óvitað en ljóst er að þeir strunsuðu framhjá þeim blaðamönnum sem vildu ræða við þá.

Að loknum sex leikjum er Bosnía með sex stig líkt og Ísland. Þjóðirnar eru í 4. og 5. sæti J-riðils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×