Fótbolti

Fylkir upp í Bestu deildina eftir sigur í hreinum úr­­slita­­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fylkiskonur léku síðast í efstu deild fyrir tveimur árum og munu leika þar á ný á næsta ári.
Fylkiskonur léku síðast í efstu deild fyrir tveimur árum og munu leika þar á ný á næsta ári. Vísir/Elín Björg

Fylkiskonur leika í Bestu deildinni á næsta ári en liðið vann 3-2 sigur á Gróttu í úrslitaleik liðanna í Lengjudeildinni í dag.

Fyrir leik Fylkis og Gróttu á Seltjarnarnesi í dag voru forsendurnar skýrar. Fylki dugði jafntefli til að tryggja sér sæti í Bestu deildinni en sigur Grótta myndi tryggja Seltirningum sæti upp.

Leikurinn var fjörugur og Grótta komst yfir í fyrri hálfleik með marki Arnfríðar Auðar Arnarsdóttur. Staðan í hálfleik var 1-0 en á fyrsta korterinu í síðari hálfleik var Fylkir búið að snúa leiknum sér í vil.

Fyrst skoraði Tinna Harðardóttir og síðan Erna Sólveig Sverrisdóttir á 61. mínútu og staðan orðin 2-1 fyrir Fylki.

Rebekka Sif Brynjarsdóttir gaf Gróttukonum von þegar hún skoraði glæsilegt mark á 73. mínútu en Guðrún Karítas Sigurðardóttir, markahæsti leikmaður Fylkis á tímabilinu, kláraði leikinn með marki á 84. mínútu.

Lokatölur 3-2 og Fylkiskonur fögnuðu innilega. Vel mætt var á leikinn á Nesinu og mikil stemmning á pöllunum.

Í Fossvoginum tóku Lengjudeildarmeistarar Víkings á móti HK. Víkingar var fyrir töluverðu síðan búið að tryggja sér sæti í efstu deild og því lítið upp á að spila í leiknum.

Eina mark hans kom á 8. mínútu. Það skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir fyrir HK. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki eftir það og HK fór því með 1-0 sigur af hólmi. Smá skuggi á sigurhátíð Víkinga sem skipulögð var eftir leik en þær geta vel við unað. Lengjudeildar- og bikarmeistarar í sumar.

Með sigrinum fer HK uppfyrir Fylki og endar mótið í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×