Fótbolti

Neymar orðinn sá marka­hæsti en knatt­spyrnu­sam­bandið viður­kennir ekki metið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Neymar fagnar marki sínu í gær.
Neymar fagnar marki sínu í gær. Vísir/Getty

Neymar varð í nótt markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins í knattspyrnu þegar hann skoraði tvö mörk í 5-1 sigri liðsins gegn Bólivíu. 

Með fyrra marki sínu í leiknum tók Neymar fram úr þrefalda heimsmeistaranum Pelé og varð markahæstur í sögu brasilíska landsliðsins sem fimm sinnum hefur hampað heimsmeistaratitlinum.

Markið kom á 61. mínútu leiksins og var mark númer sjötíu og átta á landsliðsferli Neymar en hann skoraði annað mark í uppbótartíma. Hann fagnaði metmarkinu með því að steyta hnefann upp í loftið, fagn sem Pelé var þekktur fyrir.

„Ég er mjög ánægður, það eru enginn orð til að lýsa þessu,“ sagði Neymar í viðtali eftir leikinn í nótt.

„Ég hélt aldrei að ég myndi ná þessu meti.“

Neymar hafði misnotað vítaspyrnu fyrr í leiknum en náði svo metinu í síðari hálfleiknum.

Brasilíska knattspyrnusambandið er reyndar enn með Pelé efstan á lista yfir markahæstu leikmenn landsliðsins. Þar er hann skráður með 95 mörk í 114 leikjum en FIFA telur ekki með mörk sem Pelé skoraði í æfingaleikjum gegn félagsliðum.

Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins sagði í viðtali eftir leik að Neymar væri nú orðinn markahæsti leikmaður Brasilíu í leikjum gegn landsliðum. Góðgerðasamtök í nafni Pelé viðurkenndu hins vegar metið.

„Til hamingju Neymar Jr. með að hafa farið uppfyrir Kónginn á lista yfir markahæstu leikmenn Brasilíu í opinberum leikjum. Pelé klappar án efa fyrir þér í dag,“ mátti lesa á samfélagsmiðlum samtakanna.

Pelé lést úr krabbameini undir lok síðasta árs 82 ára að aldri. Brasilía mætir Perú á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×