Erlent

Alræmdi strokufanginn handtekinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Strok Khalife er það sjötta í landinu frá árinu 2017.
Strok Khalife er það sjötta í landinu frá árinu 2017. Lögreglan í Lundúnum/AP

Strokufanginn Daniel Abed Khalife hefur verið handtekinn í London. Hans hafði verið leitað síðan á miðvikudagsmorgun eftir að í ljós kom að hann hafði sloppið úr fangelsinu HMP Wandsworth í suðvesturhluta höfuðborgar Bretlands.

BBC greinir frá þessu. Fyrir handtökuna hafði lögreglan í Bretlandi staðfest að sést hefði til Khalife í Chiswick-hverfinu í London. Þar var hann síðan handtekinn um hádegisleytið í dag.

Löggæsluyfirvöld í Bretlandi höfðu boðið tuttugu þúsund pund, eða rúmar þrjár milljónir, fyrir upplýsingar sem leitt gætu til handtökunnar.

Khalife er einungis 21 árs gamall. Hann var handtekinn á meðan hann gegndi herþjónustu, sakaður um að hafa komið gervisprengjum fyrir á herstöð sinni í janúar á þessu ári. Hann er einnig grunaður um að hafa njósnað fyrir annað ríki, sem talið er vera Íran.

Flótti Khalife vakti mikla athygli. Hann er talinn hafa strokið í gegnum eldhús fangelsisins, meðal annars með því að binda sig undir sendiferðabíl sem átti leið í og úr fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×