Enski boltinn

Segir að Hender­son yrði leiður ef stuðnings­menn sneru baki við honum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gareth Southgate landsliðsþjálfari og Harry Kane á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Úkraínu.
Gareth Southgate landsliðsþjálfari og Harry Kane á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Úkraínu. Vísir/Getty

Búist er við að Jordan Henderson verði í byrjunarliði Englands sem mætir Úkraínu í undankeppni EM í dag. Gareth Southgate vonast til að stuðningsmenn standi við bakið á liðinu í leiknum.

Jordan Henderson yfirgaf Liverpool þar sem hann var fyrirliði og gekk til liðs við sádiarabíska félagið Al-Ettifaq. Félagaskiptin vöktu töluverða athygli. Ekki síst í ljósi þess að Henderson hefur verið ötull talsmaður LGBTQ+ samfélagsins. Samkynhneigð er ólögleg í Sádi Arabíu og gæti verið refsað með dauðarefsingu.

Þegar Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands valdi Henderson í landsliðshóp þjóðarinnar fyrir landsleikjagluggan nú í septemmber tilkynntu LGBTQ+ stuðningsmannasamtök Englands að þau myndu snúa baki í völlinn ef Henderson myndi spila fyrir þjóð sína. Það væri það sama og þeim fyndist hann hafa gert við þau.

„Ég held að Jordan Henderson hafi tjáð sína skoðun í vikunni um að hann yrði leiður ef það væri þannig sem þeim liði. Tilfinningar hans til þessa samfélags hafa ekki breyst,“ sagði Southgate á blaðmannafundi í vikunni.

„Sem lið þá er ég viss um að stuðningsmenn okkar munu standa við bakið á liðinu þegar leikurinn byrjar.“

Southgate sagðist skilja sum ummæli sem hafa fallið og virða þau. Hann sagðist ekki hafa íhugað að taka Henderson úr landsliðshópnum vegna málsins.

„Ég vel ekki liðið út frá utanaðkomandi viðbrögðum. Hann er mjög reynslumikill atvinnumaður. Hann er með þroska til að ráða við aðstæðurnar. Hann hefur æft vel í vikunni líkt og allt liðið. Allir leikmenn eru tilbúnir í slaginn sem er mjög ánægjulegt.

Henderson sjálfur var í viðtali við miðilinn The Athletic í vikunni þar sem hann varði ákvörðun sína að fara til Sádi Arabíu og sagðist staðfastlega trúa því að það hafi verið rétt í stöðunni.

„Það sem ég hef alltaf reynt að gera er að hjálpa. Ég hef lagt mikið á mig til að hjálpa. Ég hef verið með reimar og armbönd, ég hef talað við fólk í þessu samfélagi til að nota mína stöðu til að hjálpa þeim. Það er það sem ég alltaf reynt að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×