Neytendur

Ekki vöruð við þúsund króna gjaldi fyrir hrað­banka­út­tekt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Í svörum Landsbankans kemur fram að ómögulegt sé að birta nákvæma upphæð í hraðbönkum áður en viðskiptavinir séu rukkaðir.
Í svörum Landsbankans kemur fram að ómögulegt sé að birta nákvæma upphæð í hraðbönkum áður en viðskiptavinir séu rukkaðir. Vísir/Getty

Þúsund króna út­tektar­gjald er lagt á við­skipta­vini bankanna þegar þeir taka út fjár­hæðir á kredit­kortum sínum. Við­skipta­vinir eru ekki varaðir við fyrir fram og furðar við­skipta­vinur Lands­bankans sig á því. Lands­bankinn segir að ó­mögu­legt að birta ná­kvæman kostnað við út­tektir með kredit­kortum þar sem gjald­skrár banka séu mis­jafnar. Engin við­vörun er heldur gefin í hrað­bönkum Ís­lands­banka og Arion banka.

„Ha? Bara ha??? Krakkar! Ég fór í hrað­banka. Hjá MÍNUM við­skipta­banka. Ha? Bara í al­vörunni?“ spyr Hrafn­dís Bára Einars­dóttir, hótel­stjóri á Austur­landi, í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Þar birtir hún mynd af rukkun Lands­bankans sem nemur þúsund krónum.

Í sam­tali við Vísi segist Hrafn­dís hafa fengið þær skýringar að gjaldið sé tekið þar sem hún hafi verið að taka út pening af kredit­korti. Það hafi hún ekki haft hug­mynd um.

„Það breytir því ekki að hvergi í ferlinu er mér sagt að það verði tekin þessi gjöld. Mér finnst aðal­fréttin kannski sú að fólk sé ekki upp­lýst um gjald­tökuna. Fyrir utan það að þúsund kall er frekar brútal upp­hæð, sér­stak­lega þar sem þú ert ekki upp­lýstur um neitt.“

Hrafn­dís segir að til allrar hamingju hafi hún tekið út nægi­lega háa upp­hæð. Hefði hún til að mynda einungis tekið út þúsund krónur eða á­líka upp­hæð hefði það farið enn meira í taugarnar á henni að hafa ekki verið látin vita af gjald­tökunni fyrir­fram.

Hyggjast inn­leiða á­bendingar í hrað­banka

Vísir sendi Lands­bankanum, auk Ís­lands­banka og Arion banka fyrir­spurn vegna málsins. Í svörum Land­bankans segir að ó­mögu­legt sé að birta ná­kvæman kostnað við út­tektir með kredit­kortum, þar sem gjald­skrár banka, á Ís­landi og annars staðar, séu mis­jafnar og bankar rukki fyrir þessa þjónustu.

„Við erum að vinna í því að koma á fram­færi í hrað­bönkum á­bendingu til þeirra sem eru að taka út peninga af kredit­kortum í hrað­bönkum Lands­bankans, að það kunni að vera að bankinn þeirra taki gjald fyrir þjónustuna. Við vonum að þetta birtist þeim sem nota hrað­bankana okkar fljót­lega. Gjald Lands­bankans er birt í verð­skrá bankans, undir kostnaði sem tengist kredit­kortum.“

Tekið er fram í skilmálum kreditkorta bankanna að rukkað sé vegna útttöku í hraðbanka.Vísir

Bent er á að þeir sem taki reiðu­fé út úr hrað­bönkum með kredit­korti séu að taka lán, sme þeir borgi til baka þegar þeir greiða næsta kredit­korta­reikning. Engin færslu­gjöld séu kredit­kortum, sem skipti í þessu sam­hengi ekki máli.

„Gjaldið sem birtist á korta­yfir­liti vegna slíkrar þjónustu er vegna kostnaðar við lánið og er til­greint í gjald­skrám út­gáfu­banka kortsins. Það er eins og að ofan segir, mis­munandi milli út­gáfu­banka kredit­kortanna, hvort sem þeir eru inn­lendir eða er­lendir. Ef við­skipta­vinir Lands­bankans taka út eigin peninga af debet­korti í hrað­bönkum Lands­bankans, borga þeir ekkert gjald fyrir það og heldur ekki ef þeir taka út eigin peninga hjá gjald­kerum bankans.“

Gefa ekki heldur við­varanir

Í svörum Ís­lands­banka til Vísis kemur fram að engin við­vörun sé gefin upp í hrað­bönkum en það sé tekið fram í skil­málum með kredit­kortum bankans.

„Í verð­skrá bankans kemur fram að við­skipta­vinur greiðir 2,2,% af fjár­hæð auk 135 kr út­tektar­gjalds vegna út­tektar með kredit­kortum. Kredit­kortin er eitt form af láns­við­skiptum og kostnaðurinn vegur því á móti vaxta­kostnaði á­samt öðrum þáttum. Ef við­skipta­vinur notar debet­kortið í hrað­banka þá bætist enginn kostnaður við og því hvetjum við alla við­skipta­vini að nota frekar debet­kortið sitt.“

Þá kemur slíkt hið sama fram í svörum Arion banka. Al­mennt sé það svo að sé kredit­kort frá Arion notað til út­tektar í hrað­banka frá Arion banka sé gjald­taka sam­kvæmt skil­málum kortsins og gjald­skrá bankans.

„Gjald­takan er ekki til­greind sér­stak­lega þegar út­tekt á sér stað. Rétt er að hafa í huga að út­tekt úr hrað­banka með kredit­korti er í raun lán­taka fram að gjald­daga korta­reikningsins og tekur Arion banki gjald fyrir það sem nemur 2,2% + 130 krónum. Þannig myndi gjald­taka vegna út­tektar á 10.000 krónum nema 350 krónum (220+130).“

Engin gjald­taka sé þegar debet­kort frá Arion er notað til út­t­tektar í hrað­banka Arion. Sé hins vegar kredit-eða debet­kort frá öðrum bönkum en Arion notuð til út­tektar í hrað­bönkum Arion sé greitt fyrir það gjald sem nemur 1,1 prósent en að lág­marki 295 krónum. Þessi gjald­taka er í báðum til­vikum tekin fram með skýrum hætti áður en út­tekt á sér stað að sögn bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×