Erlent

Tveir til við­bótar látnir í flóðunum í Grikk­landi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mikið tjón hefur orðið í borginni Volos vegna flóðanna.
Mikið tjón hefur orðið í borginni Volos vegna flóðanna. EPA

Þrír eru látnir og fjögurra er enn saknað eftir að gríðarmikil flóð urðu víðsvegar um Grikkland vegna óveðursins Daniel sem nú ríður yfir landið. 

Skógareldar hafa leikið grísku þjóðina grátt í allt sumar og ekkert lát virðist vera á hamförum í landinu. Óveðrið hefur ollið skriðuföllum, brýr og rafmagnsstaurar, auk annarra innviða, hafa eyðilagst. 

Einungis nokkrir dagar eru síðan skógareldum, sem urðu minnst tuttugu manns að bana, lauk. Á þriðjudag lét einn maður lífið eftir að veggur féll á hann í borginni Volos. Andlát hans hefur verið rakið til flóðanna.

Síðan þá hafa minnst tveir til viðbótar látist í flóðunum. Fjögurra er enn saknað að sögn loftslags- og varnarmálaráðherra Grikklands, Vassilis Kikilias. Hann segir hundruði björgunarmanna vera við störf vegna flóðanna sem orðið hafa víðs vegar um landið. 

Í frétt Reuters segir að lík gamallar konu hafi fundist í sjávarþorpi nálægi Volos í dag. Síðar hafi karlmaður orðið fyrir bifreið í borginni Karditsa með þeim afleiðingum að hann lést. 

Óveðrið, auk gróðureldanna, hefur haft í för með sér tilheyrandi tjón fyrir ferðaþjónustuna en rúmur mánuður er eftir af háannatíma ferðamanna í landinu. Breska ferðaskrifstofan Jet2 tilkynnti í dag að öllum flugferðum til landsins yrði aflýst til 12. september vegna veðursins. Þá hafði félagið þegar aflýst sex flugferðum til Grikklands.

Búist er við að draga muni úr veðrinu í fyrsta lagi í morgun. 


Tengdar fréttir

Þúsundir ferðamanna flýja Grikkland

Þúsundir ferðamanna reyna að komast heim til sín frá Ródos-eyju í Grikklandi vegna stjórnlausra skógarelda þar. Eldar loga á tugum staða í Grikklandi og hefur fjöldi ríkja sent Grikkjum aðstoð undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×