Lífið

„Hvaða ráð­herra notar síma­veski?“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Greint var frá því fyrr í dag að ráðherrarnir leggja síma sína til hliðar fyrir fundinn af öryggisástæðum.
Greint var frá því fyrr í dag að ráðherrarnir leggja síma sína til hliðar fyrir fundinn af öryggisástæðum. Vísir/Einar

Ráðherrar lögðu síma sína til hliðar áður en ríkisstjórnarfundur hófst á Egilsstöðum í dag. Mynd af símunum vakti nokkra athygli á samfélagsmiðlum í dag. Upp spratt umræða um hvaða ráðherrar ættu hvaða síma.

„Hvaða ráðherra notar símaveski?“ spyr Jóhann Óli Eiðsson lögfræðingur og fyrrverandi blaðamaður í færslu sem hann birtir á samfélagsmiðlinum X, sem áður hét Twitter, í dag. 

Því næst segir Jóhann Óli hvaða ráðherrar hann telur að séu líklegastir til að eiga símaveski. Að hans mati eru mestar líkur á að það tilheyri Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra eða Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segist hafa fengið það verkefni að kynna niðurstöðurnar. Hún ljóstrar því upp að símaveskið er í eigu Ásmundar.

Netverjar höfðu einnig áhuga á öðrum símum ráðherra, til að mynda þeim sem er með ökuskírteini í hulstrinu. Áslaug segir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra eigi þann síma. „Mummi lagðist gegn því að fá ökuskírteinið í símann og setti það því bara á símann.“

Þá er Áslaug spurð hvort það sé Sigurður Ingi sem eigi símann í stærsta hulstrinu.

Áslaug segir að Sigurður Ingi eigi ekki umræddan síma heldur annar ráðherra sem er með stærri hendur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×