Fótbolti

Óskar fyrir stór­leik dagsins: „For­réttindi að það sé pressa á þér í vinnunni“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks Vísir/Hulda Margrét

Stærsti leikur í sögu karla­liðs Breiða­bliks í fót­bolta, að margra mati, fer fram á Kópa­vogs­velli síðar í dag þegar að liðið tekur á móti FC Struga í seinni leik liðanna í um­spili um laust sæti í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu.

Breiða­blik vann fyrri leikinn úti í Norður-Makedóníu með einu marki gegn engu og getur, með annað hvort jafn­tefli eða sigri í dag tryggt sér sæti í riðla­keppni í Evrópu fyrst allra karla­liða á Ís­landi.

„Við þurfum að gleðjast yfir því að vera í þeirri stöðu að geta spilað svona leik sem skiptir svo miklu máli. Það eru for­réttindi að það sé pressa á þér í vinnunni.“

„Þetta er bara blanda af mikilli eftir­væntingu og auð­vitað finnur maður fyrir stærð leiksins. Það er alveg ljóst,“ segir Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari Breiða­bliks, um til­finningarnar sem bærast um innra með honum fyrir leiknum. „Maður finnur fyrir stressi, það er smá ótti en mest eftir­vænting.“

En hvernig nálgast Óskar leik­menn sína í að­draganda þessa stór­leiks?

„Maður reynir að hafa þetta eins venju­legt og þetta getur orðið, þetta er auð­vitað bara fót­bolta­leikur sem við þurfum að vinna en í grunninn þurfum við að um­vefja þá stað­reynd að við erum komnir á þennan stað, í þessa stöðu og menn eru búnir að vinna fyrir því.

Við þurfum að gleðjast yfir því að vera í þeirri stöðu að geta spilað svona leik sem skiptir svo miklu máli. Það eru for­réttindi að það sé pressa á þér í vinnunni, það eru ekki allir sem fá að upp­lifa það og við þurfum að vera þakk­látir fyrir það.

Passa upp á að orkan sem við komum með inn í þennan leik sé já­kvæð, að allar nei­kvæðu til­finningarnar á borð við stress, ótti og allt þetta þar sem að hlutir sem þú óttast mest í heiminum að tapa eða falla á sverð. Að það dragi þig ekki niður heldur, af því að við erum með­vitaðir um það og þorum að tala um það, geti óttinn verið öflugur drif­kraftur.“

Segir Óskar sem telur að innst inni séu menn að hugsa hvað gerist ef þeir klikki.

„Að falla á þessari síðustu hindrun, sem er bara eðli­legasti hlutur í heimi. Við höfum á­hyggjur af öllu, alltaf, alls staðar en þegar að hópurinn er saman, hópurinn er með­vitaður um það og allir í sömu stöðu, þá er auð­veldara að takast á við það og nýta það sem já­kvæða orku, öflugan drif­kraft.“

Við­talið við Óskar í heild sinni fyrir stór­leik dagsins gegn Struga FC má sjá hér fyrir neðan:

Klippa: Óskar fyrir stórleikinn: Forréttindi að það sé pressa á þér í vinnunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×