Enski boltinn

Hetja C-deildarliðs Lincoln lék með Kórdrengjum fyrir tveimur árum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lukas Bornhøft Jensen reyndist hetja Lincoln í gær, en hann lék með Kórdrengjum í Lengjudeildinni fyrir tveimur árum.
Lukas Bornhøft Jensen reyndist hetja Lincoln í gær, en hann lék með Kórdrengjum í Lengjudeildinni fyrir tveimur árum. Accrington Stanley

Danski markvörðurinn Lukas Bornhøft Jensen varði tvær vítaspyrnur er C-deildarlið Lincoln City sló úrvalsdeildarlið Sheffield United úr leik í enska deildarbikarnum í vítaspyrnukeppni í gær. Árið 2021 lék þessi danski markvörður með Kórdrengjum í Lengjudeildinni hér á Íslandi.

Jensen hefur verið á nokkru flakki eftir að atvinnumannaferillinn hófst, en þó lengst af á Englandi. Hann hóf ferilinn hjá Helsingør í heimalandinu áður en hann færði sig yfir til HIK árið 2019.

Eftir að hafa leikið aðeins sex deildarleiki fyrir HIK var Jensen svo keyptur til enska úrvalsdeildarfélagsins Burnley. Markvörðurinn náði aldrei að spila leik fyrir félagið, en var þess í stað lánaður á nokkra staði á tíma sínum hjá Burnley.

Hann var lánaður til Bolton Wanderers, Carlisle United, Accrington Stanley og sumarið 2021 til Kórdrengja í Lengjudeildinni á Íslandi. Með Kórdrengjum lék hann sjö leiki, vann fjóra þeirra og gerði þrjú jafntefli.

Jensen fór svo frítt til Lincoln frá Burnley fyrir tímabilið og reyndist hetja liðsins í 2. umferð enska deildarbikarsins í gær. Hann varði tvær spyrnur í vítaspyrnukeppninni eftir markalaust jafntefli og var valinn maður leiksins. Lincoln hafði að lokum betur í vítaspyrnukeppninni, 3-2, og er því á leið í 3. umferð þar sem annað úrvalsdeildarlið, West Ham, bíður þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×