Fótbolti

Til­kynntu ó­vænt að Júlíus væri í næsta lands­liðs­hópi Ís­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Júlíus hefur spilað vel í Noregi.
Júlíus hefur spilað vel í Noregi. fredrikstadfk.no

Júlíus Magnússon, miðjumaður norska B-deildarliðsins Fredrikstad, verður í A-landsliðshópi Íslands fyrir komandi verkefni ef marka má færslu á samfélagsmiðlum norska félagsins sem hefur nú verið eytt.

Hinn 25 ára gamli Júlíus gekk í raðir Fredrikstad fyrr á þessu ári. Hann er í stóru hlutverki hjá liðinu sem trónir um þessar mundir á toppi B-deildarinnar að lokinni 21 umferð. Þá hefur hann borið fyrirliðaband félagsins að undanförnu.

Það má ætla að Åge Hareide, landsliðsþjálfari, sé sáttur með það sem hann hefur séð og heyrt þar sem það virðist allt stefna í að Júlíus verði í landsliðshópnum sem verður tilkynntur á miðvikudaginn kemur.

Myndin sem er nú horfin af samfélagsmiðlum.Twitter@fredrikstadfk

Sá sem sér um samfélagsmiðlana hjá Fredrikstad hljóp aðeins á sig fyrr í dag og birti mynd af þremur leikmönnum liðsins sem eru á leið í landsliðsverkefni. Um var að ræða Júlíus og Færeyingana Jóannes Bjartalíð og Brand Hendriksson Olsen.

Hér til hliðar má sjá myndina sem birtist á samfélagsmiðlum félagsins fyrr í dag. Einar Guðnason, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Víkings, hafði þegar birt færsluna á Twitter-síðu sinni áður en henni var eytt.

Júlíus á að baki 5 A-landsleiki en hefur aldrei spilað keppnisleik. Hans fyrsti gæti komið nú á næstunni en Ísland mætir Lúxemborg ytra þann 8. september næstkomandi og svo Bosníu-Hersegóvínu á Laugardalsvelli þann 11. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×