Erlent

Leitast við að endur­­­heimta tvö þúsund stolna safn­muni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Starfsmanni Þjóðminjasafns Bretlands var á dögunum sagt upp eftir að hafa gerst uppvís af þjófnaði á safnmunum. 
Starfsmanni Þjóðminjasafns Bretlands var á dögunum sagt upp eftir að hafa gerst uppvís af þjófnaði á safnmunum.  EPA

Um tvö þúsund safnmunum hefur verið stolið af Þjóðminjasafni Bretlands síðustu áratugi. Aðgerðum til þess að endurheimta munina hefur verið hleypt af stokkunum. Meðal þeirra safnmuna sem horfið hafa eru gullskartgripir og demantar.

Stjórnarmeðlimur þjóðminjasafnsins, George Osborne, sem einnig er fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, greindi frá þessu. Í síðustu viku var starfsmanni safnsins sagt upp eftir að hafa gerst uppvís af þjófnaði á munum úr geymslum safnsins. Starfsmaðurinn hefur enn ekki verið kærður en rannsókn á máli hans stendur nú yfir. 

Safnstjóri þjóðminjasafnsins, Hartwig Fischer, greindi frá því í gær að hann ætlaði að stíga til hliðar vegna mistaka sem urðu í rannsókn sem gerð var vegna stolnu munanna. Þá hafi hann ekki brugðist nægilega skjótt við þegar stjórninni bárust viðvaranir um að dularfullt hvarf safnmuna mætti mögulega rekja til þjófóttra starfsmanna safnsins. 

Osborne sagði í útvarpsviðtali við BBC að munir safnsins hafi ekki verið nægilega vel skipulagðir eða skráðir, og það sé ekki óalgeng staða hjá söfnum sem hýsa mikinn fjölda muna. Þá sagði hann safnið þegar hafa endurheimt nokkra muni en gaf það ekki út hvers lags þeir væru. Loks baðst hann afsökunar á málinu, sem hann sagði að skaði orðspor safnsins verulega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×