Handbolti

Fimmtán ár í dag síðan Ísland skrifaði söguna á ÓL í Peking

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Guðmundur Guðmundsson með silfurverðlaunin.
Ólafur Stefánsson og Guðmundur Guðmundsson með silfurverðlaunin. Vísir/Vilhelm

Í dag, 24. ágúst, eru liðin fimmtán ár síðan að íslenska handboltalandsliðið vann til silfurverðlauna á ÓLympíuleikunum í Peking í Kína.

Ísland varð um leið fámennasta þjóðin til að vinna til Ólympíuverðlauna í liðsíþrótt. Ísland tapaði úrslitaleiknum 23-28 á móti Frakklandi.

Ísland komst í úrslitaleikinn með því að vinna 36-30 sigur á Spáni í undanúrslitunum en áður hafði liðið slegið Pólverja út í átta liða úrslitunum.

Í riðlakeppninni endaði Ísland í þriðja sæti í sínum riðli á eftir Suður-Kóreu og Danmörku. Íslensku strákarnir unnu Þjóðverja og Rússa í riðlinum en gerðu jafntefli við Dani og Egypta. Eina tapið kom á móti Suður-Kóreu.

Snorri Steinn Guðjónsson varð næstmarkahæsti leikmaður mótsins með 48 mörk og Guðjón Valur Sigurðsson sá þriðji markahæsti með 43 mörk. Þeir voru báðir valdir í lið mótsins ásamt Ólafi Stefánssyni.

Íslenska landsliðið á verðlaunapallinum.Vísir/AFP

Ólympíumeistarar Frakka átti einnig þrjá leikmenn í úrvalsliðinu en markvörðinn Thierry Omeyer, vinstri skyttuna Daniel Narcisse og línumanninn Bertrand Gille. Sjöundi maður liðsins var spænski hægri hornamaðurinn Albert Rocas.

Guðmundur Guðmundsson þjálfaði íslenska liðið og aðrir leikmenn voru þeir Björgvin Páll Gústavsson, Logi Geirsson, Bjarni Fritzson, Sigfús Sigurðsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Guðjónsson, Ólafur Stefánsson, Sturla Ásgeirsson, Alexander Petersson, Hreiðar Guðmundsson, Sverre Andreas Jakobsson, Róbert Gunnarsson og Ingimundur Ingimundarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×