Innlent

Engar sjáan­legar breytingar á jarð­hita­virkni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Dr. Melissa Anne Pfeffer tekur gassýni á jarðhitasvæðinu austur af Bátshrauni.
Dr. Melissa Anne Pfeffer tekur gassýni á jarðhitasvæðinu austur af Bátshrauni. Veðurstofan

Engar sjáan­legar breytingar hafa orðið á jarð­hita­virkni í kringum Öskju og Víti. Hópur vísinda­manna fór að Öskju að rann­saka að­stæður og unnið verður úr gögnum næstu daga.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Veður­stofunni. Þar segir að ferð vísinda­manna á vegum stofnunarinnar hafi heppnast vel. Dr. Melissa Anne Pf­ef­fer og Dr. Michelle Parks fóru fyrir ferðinni.

Var mark­miðið að gera at­huganir, efla sam­skipti við land­verði og aðra vísinda­menn og mæla gas, safna sýnum og mæla hita­stig og að­stoða við GPS og hallamælingar.

Fyrstu niður­stöður sýna engar breytingar á gasi eða vatni frá fyrri árum en verið er að greina sýnin betur, að því er segir í til­kynningunni. Þar segir að engar sjáan­legar breytingar séu á lands­lagi og mælingar á hita­stig og sýru­stigi bendi ekki til þess að breytingar hafa orðið á jarð­hita­virkni í kringum Öskju og Víti.

Til­kynningin sem barst þann 12.ágúst um gufu­strók sem sást við jaðar Báts­hrauns hefur verið túlkaður sem ryk vegna grjót­hruns úr bröttum hlíðum öskjunnar. Fimm GPS stöðvum hefur verið komið fyrir á víð og dreif um öskjuna og gerðar voru halla­mælingar á hrauninu sem myndaðist í eld­gosum árin 1961 og 1921.

Hallamælingarnar sýna engar breytingar á stað­setningu land­risins síðan mælingar voru gerðar í ágúst árið 2022, en það er í sam­ræmi við gögn frá GPS stöðvum og InSAR myndum, að því er segir í til­kynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×