Erlent

Átta af hverjum þúsund inn­rituðum töskum týndist árið 2022

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í fyrra týndust nærri átta töskur af hverjum þúsund sem voru innritaðar.
Í fyrra týndust nærri átta töskur af hverjum þúsund sem voru innritaðar. Getty/Brandon Bell

Tuttugu og sex milljónir taska eða annars konar farangur týndist hjá flugfélögunum árið 2022. Þetta jafngildir átta töskum af hverjum þúsund innrituðum töskum.

Um var að ræða mesta fjölda týndra taska í áratug en gögn sem BBC hefur undir höndum benda til þess að ástandið sé að lagast, ekki síst vegna aukins fjölda flugvallarstarfsmanna og nýrrar tækni.

Samkvæmt gögnum frá SITA, sem hefur umsjón með farangurskerfum um 90 prósent flugfélaga heims, týndust eða skemmdust 7,6 töskur eða annar farangur af hverjum 1.000 árið 2022. Þetta var mesti fjöldinn frá 2012, þegar níu af hverjum 1.000 töskum týndust.

Flestar töskur skila sér til eigenda sinna fyrir rest.Getty/Bill Clark

Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var fjöldinn sex töskur af hverjum 1.000 en fjölgunina nú má ekki síst rekja til þess að fjölgun starfsmanna á flugvöllunum var ekki jafn hröð og fjölgun ferðamanna eftir að flugferðum fjölgaði á ný eftir að faraldurinn rénaði.

Aukninguna í fyrra má einnig rekja til millilendinga en 42 prósent þess farangurs sem týnist, týnist þegar fólk millilendir og færir sig á milli véla.

Nicole Hogg, yfirmaður hjá SITA, segir að þrátt fyrir allt skil langflestur farangur sér á leiðarenda að lokum. Nýja kerfið sem stofnunin hefur tekið í notkun virkar þannig að það finnur næsta besta flug fyrir hinn týnda farangur og farangurinn er innritaður í það flug af kerfinu, án aðkomu starfsmanns.

Hogg segir að í þeim fáu tilvikum þegar farangur glatast alfarið megi yfirleitt rekja það til þess að allar upplýsingar á farangrinum um flug og farþegan hafi dottið af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×