Fótbolti

Daníel Laxdal: Það tók bara smá tíma að koma á „Jöllaball“

Árni Jóhannsson skrifar
Daníel Laxdal maður kvöldsins í kvöld. 500 leikir fyrir Stjörnuna.
Daníel Laxdal maður kvöldsins í kvöld. 500 leikir fyrir Stjörnuna. Vísir / Anton Brink

„Mjög sáttur með sigurinn í kvöld“, sagði 500 leikja maðurinn Daníel Laxdal við Stöð 2 Sport eftir sigur Stjörnumanna gegn KR. Leikurinn var í 20. umferð Bestu deildar karla og skipti gríðarlega miklu máli í baráttunni um fjórða sætið. Daníel steig ekki feilspor í varnarlínunni hjá heimamönnum og stýrði liðinu til sigurs.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög flottur hjá okkur þar sem við vorum mjög þéttir en við gáfum smá eftir í seinni hálfleik. Svo bjargaði Árni öllu því sem kom á markið.“

Leikurinn var mjög opinn og á löngum köflum leikinn endanna á milli. Þetta hefði getað þróast öðruvísi ef KR hefði náð að nýta sína kafla í seinni hálfleik.

„Já sem betur fer kom markið ekki. Mér fannst við gefa smá eftir í seinni hálfleik sem við þurfum að ræða inn í klefa og laga fyrir næsta leik.“

Daníel var þá spurður að því hvernig hann mæti viðsnúning á gengi liðsins. Stjarnan var í fallsæti um miðbik móts.

„Ég veit ekki alveg. Það tók bara smá tíma að koma á „Jöllaball“. Svo erum við bara þéttur hópur, þetta eru góðir strákar og góðir leikmenn.“

Daníel, eins og áður hefur komið fram, var að spila sinn 500. leik fyrir Stjörnuna sem er gríðarlegt afrek. Á hann mikið eftir?

„Við verðum að sjá til. Ég á eitt ár eftir af samningnum og svo verð ég bara að hlusta á líkamanna og sjá hvað hann segir.“

Hvað segir líkaminn núna?

„Fá sér bjór“, sagði Daníel Laxdal og skellti upp úr að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×