Innlent

Raf­hlaupa­hjóla­þjófur gómaður

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Maður sem hafði stolið nokkrum rafhlauphjólum var gómaður af lögreglu í gær.
Maður sem hafði stolið nokkrum rafhlauphjólum var gómaður af lögreglu í gær. Vísir/Vilhelm

Það var nokkuð um þjófnað og innbrot ef marka má dagbók lögreglu fyrir gærkvöldið. Lögreglunni var tilkynnt um einstakling sem bar nokkur rafmagnshlaupahjól inn í húsnæði. Hjólin reyndust vera þýfi og voru haldlögð af lögreglunni. 

Verkefni lögreglustöðvar 1, sem nær yfir miðborgina, vesturbæ, austurbæ og Seltjarnarnes, einkenndust sérstaklega af þjófnaðarþema.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um innbrot í heimahúsi í hverfi 103 þar sem verðmætum var stolið. Málið er í rannsókn. 

Þá var lögreglunni tilkynnt um grunsamlegan mann sem hélt á reiðhjóli. Lögreglan hafði upp á manninum og játaði hann að hafa stolið hjólinu. Hjólið var haldlagt af lögreglu.

Einnig barst lögreglunni tilkynning um þjófnað í matvöruverslun en það kemur ekki fram hvar sú verslun er. Sömuleiðis var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við fyrirtæki en þeir einstaklingar fundust ekki og það kemur ekkert meira fram um málið.

Veski komið til eiganda og hellan skilin eftir í gangi

Við lögreglustöð 2 sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ skiluðu ferðamenn inn veski sem þeir höfðu fundið og var með peningum og greiðslukorti. Samkvæmt lögreglu var eigandinn hinn glaðasti eftir að veskinu var skilað til hans.

Á lögreglustöð 4 sem nær yfir svæði Grafarvogs, Grafarholts og Mosfellsbæjar barst lögreglu tilkynning um ljósan reyk og brunalykt sem barst frá íbúð. Enginn eldur var í íbúðinni en heimilistæki hafði gleymst á eldavélinni. Slökkviliðið sá um að reykræsa íbúðina.

Á sama svæði stöðvaði lögreglan ökumann sem ók langt yfir hámarkshraða og reyndist við nánari skoðun ökuréttindalaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×