Fótbolti

„Ég var búin að æfa þetta með Jasmín í vetur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
2EA55B875E7E33436817F2F5B458B4937B5A8BF5716324007747AE5666DD3242_713x0

Sædís Rún Heiðarsdóttir lagði upp tvö mörk fyrir Stjörnuna er liðið vann mikilvægan 4-2 sigur gegn Breiðablik í kvöld.Hún segist sérstaklega ánægð með seinni stoðsendinguna.

„Það er mjög mikill léttir að klára þrjú stig og við ætluðum okkur alltaf að koma og sækja þau í dag. Það er bara mjög ljúft að gera það,“ sagði Sædís að leik loknum.

Stjörnukonur höfðu öll völd á vellinum stærstan hluta leiksins og komust í 3-0 eftir um klukkutíma leik. Blikar voru þó ekki langt frá því að snúa leiknum við því þær minnkuðu muninn niður í 3-2 áður en fjórða mark Stjörnunnar leit dagsins ljós í uppbótartíma.

„Mér fannst við spila mjög vel í kannski 75 mínútur, en hvað það er sem gerist eftir það er kannski erfitt að segja. Við þurfum að skoða það aftur. Það var algjör óþarfi að vera að fá á okkur þessi tvö mörk.“

Eins og áður segir gaf Sædís tvær stoðsendingar í leiknum, en hún segir það í raun ekki skipta neinu máli í stóru myndinni.

„Þrjú stig er það eina sem skiptir mig máli sama hvernig við förum að því. Jú ég er sérstaklega ánægð með stoðsendingu númer tvö þar sem ég var búin að æfa þetta með Jasmín í vetur.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að byggja ofan á. Við erum virkilega vel spilandi í 75 mínútur og það er eitthvað sem við þurfum klárlega að byggja ofan á,“ sagði Sædís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×