Fótbolti

Níu mörk í sex leikjum og Messi og félagar á leið í bikarúrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi heldur áfram að raða inn mörkum í Bandaríkjunum.
Lionel Messi heldur áfram að raða inn mörkum í Bandaríkjunum. Mitchell Leff/Getty Images

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, hefur heldur betur farið vel af stað hjá nýju félagi eftir að hann gekk í raðir Inter Miami frá PSG. Hann skoraði sitt níunda mark fyrir félagið er liðið mætti Philadelphia Union í undanúrslitum bikarsins í nótt.

Þetta var aðeins sjötti leikur Messi fyrir Inter Miami síðan hann gekk í raðir félagsins og hefur hann því skorað 1,5 mörk að meðaltali í leik.

Messi skoraði annað mark liðsins í nótt á 20. mínútu leiksins með þrumuskoti langt fyrir utan teig eftir að Josef Martinez hafði komið Inter Miami í forystu strax á þriðju mínútu.

Það var svo annar fyrrverandi leikmaður Barcelona, Jordi Alba, sem skoraði þriðja mark Inter Miami í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var því 3-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Alejandro Bedoya minnkaði hins vegar muninn fyrir Philadelphia-liðið þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka áður en David Ruiz gulltryggði 4-1 sigur Inter Miami.

Inter Miami er því á leið í bikarúrslit eftir sigurinn þar sem liðið mætir Nashville SC aðfararnótt sunnudags um komandi helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×