Erlent

Þrjá­tíu látnir eftir sprengingu í Rúss­landi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Slökkviliðsmenn berjast við að slökkva eldinn sem kviknaði eftir að bensínstöð sprakk í Makhachkala í Dagestan.
Slökkviliðsmenn berjast við að slökkva eldinn sem kviknaði eftir að bensínstöð sprakk í Makhachkala í Dagestan. AP

Þrjátíu létust og rúmlega sjötíu særðust í gríðarmikilli sprengingu sem átti sér stað á bensínstöð í Dagestan í suðurhluta Rússlands í nótt.

Sprengingin átti sér stað á mánudagsnótt í útjaðri Makhachkala, höfuðborgar Dagestan sem er eitt af 21 lýðveldi Rússlands. 

Eldur hafði kviknaði á bílaverkstæði og dreifðist í nálæga bensínstöð sem sprakk í loft upp. Í kjölfarið geisaði eldur á um 600 fermetra svæði.

Myndirnar af eldlogunum í Dagestan eru kyngimagnaðar.AP

Neyðarráðuneyti Rússlands greindi frá því að 105 hefðu særst vegna sprengingarinnar og af þeim hefðu þrjátíu látið lífið. Ríkismiðillinn RIA Novosti greindi frá því að hinir særðu verði fluttir með sjúkraflugi til Moskvu.

Lögreglan í Rússlandi hefur hafið rannsókn vegna málsins.

Að sögn yfirvalda í Dagestan munu fjölskyldur hinna látnu fá eina milljóna rúbla (um 1,3 milljónir íslenskra króna) og hinir særðu munu fá á bilinu 200 til 400 þúsund rúblur (270 til 540 þúsund íslenskra króna) í skaðabætur vegna slyssins.

Deginum í dag hefur verið lýst sem sorgardegi í Dagestan.

Eldurinn breiddi úr sér yfir nokkuð stórt svæði, um 600 fermetra.AP

Þetta var þó ekki eina sprengingin sem átti sér stað í Rússlandi í nótt. Í vesturhluta Síberíu sprakk sprenging í olíunámu með þeim afleiðingum að tveir létust og fimm særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×