Erlent

Heims­met­hafi gagn­rýndur fyrir að yfir­gefa deyjandi mann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harila og sjerpinn Tenjen Sherpa fagna nýju heimsmeti. Þau klifu fjórtán hæstu tinda heims á aðeins 92 dögum. Gamla metið var 189 dagar.
Harila og sjerpinn Tenjen Sherpa fagna nýju heimsmeti. Þau klifu fjórtán hæstu tinda heims á aðeins 92 dögum. Gamla metið var 189 dagar. AP/Niranjan Shrestha

Heimsmethafinn Kristin Harila hefur neitað því að hafa yfirgefið burðarmann sem lá fyrir dauðanum til að ná á topp K2 í Pakistan og setja met í að klífa alla tinda heims hærri en 8.000 metra á sem stystum tíma.

Á meðan klifi hinnar norsku Harila stóð 27. júlí síðastliðinn féll Mohammed Hassan niður bratta hlíð. Harila segir að hún og teymið hennar hafi gert allt sem þau gátu til að bjarga Hassan en að aðstæður hefðu verið of hættulegar til að freista þess að færa hann. 

Á myndum sem teknar voru sést teymið ganga framhjá Hassan á leið upp á toppinn.

Austurrísku fjallagarparnir Wilhelm Steindl og Philip Flamig, sem einnig voru á K2 þennan dag, náðu myndskeiði úr dróna þar sem göngumenn sjást taka sveig framhjá Hassan. Þeir segja aðeins einn hafa stoppað til að sinna Hassan, jafnvel þótt reyndir sjerpar og leiðsögumenn hefðu verið í hópnum.

Steindl og Flamig segja að uppákoma á borð við þessa hefði aldrei átt sér stað í Ölpunum og hafa sakað teymi Harila um að koma fram við Hassan eins og annars flokks manneskju. Ef hann hefði verið Vesturlandabúi hefði allt verið gert til að bjarga honum en hann ekki skilinn eftir til að setja met.

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×