Skoðun

Notkun farsíma í skólum

Inga Sigrún Atladóttir skrifar

Á síðustu dögum hafa verið líflegar umræður um hvort banna eigin farsíma í skólum landsins. Uppspretta umræðunnar er m.a. skýrsla frá UNESCO um bann fjölmargra landa við farsímanotkun í skólum. Þekktir sérfræðingar hafa fært rök fyrir því að neikvæð áhrif farsíma og spjaldtölva sé hægt að sjá á börnum nánast samstundis og telja að farsímar í skólum sé tilkomin vegna blindrar trú á tæknina og þeir sem ekki samþykkja bann á farsímum í skólum séu að loka augunum fyrir vandamáli sem blasir við.

Flestir sem unnið hafa í skólum gera sér grein fyrir því að farsímar skapa fjölmörg vandamál í skólastarfi. Í hugum fjölmargra kennara og skólastjórnenda snýst deilan um farsíma í skólum því ekki um hvort farsímar skapi vandamál eða ekki heldur fyrst og fremst hvernig bregðast á við vandamálinu.

Í umræðunni hafa komið fram andstæðar skoðanir sem kenna má við leiðandi eða skipandi uppeldi. Skipandi uppeldi setur hindranir og bönn til að vernda barnið og takmarka reynslu þeirra en leiðandi uppeldi leggur áherslu á að ræða við barnið um þá reynslu sem það verður fyrir og hjálpa því að yfirstíga þær hindranir sem upplifir.Þeir sem aðhyllast leiðandi uppeldi vilja ræða við unglingana um símanotkun, þau vandamál sem hún skapar og nýta reynslu þeirra til að móta nýjar reglur.

Bann við notkun síma í skólum myndi leysa fjölmörg vandamál og auðvelda starfsfólki og mörgum nemendum lífið innan skólans. En rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að leiðandi uppeldi hefur jákvæðari áhrif á tengslamyndun en skipandi uppeldi, leiðandi uppeldi felur í sér meiri nánd við barnið og barn sem alið er upp við leiðandi uppeldi er líklegra til að hafa betri sjálfstjórn og meiri getu til að mynda nærandi tengsl við aðra. Hæfni barna til að stjórna eigin tilfinningum, skapi og hegðun er því lykilatriði í málflutningi þeirra sem ekki vilja banna síma í skólum. Þeir vilja nota vandamálið sem farsíminn skapar í skólastarfi til að þroska barnið, fá það til að velta fyrir sér áhrifum farsíma notkunar á einstaklinga og samfélag og velta fyrir sér orsökum og afleiðingum í málinu.

Í námskránni 2011 var nám barna í grunnskólum fært frá kennarastýrðu námi að nemendastýrðu námi. Þær áherslur koma fram í grunnþáttunum sex svo og í áherslum námskrárinnar á lykilhæfni þar sem nemendur eiga að tileinka sér ábyrgð á eigin námi, taka þátt í lýðræðislegum umræðum og taka þátt í ákvörðunum sem teknar eru um nám þeirra. Þannig má með rökum segja að símabann sem sett er á án aðkomu barna gangi gegn anda þeirrar námskrár sem íslenskum skólum er gert að starfa eftir.

Íslenska námskráin leggur áherslu á leiðandi uppeldi, mannréttindi barna og þátttöku þeirra í skólasamfélaginu. Þannig þarf umræðan um símabann að vera um hvar og hvers konar aðkomu unglingar eiga að hafa af reglum um símanotkun í skólum en ekki hvort fullorðnum í íslensku samfélagi sé nóg boðið eða ekki.

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri og kennari höfundur bókarinnar: Reynsluheimar og mögulegir heimar: Leiðir til að efla leiðtogafærni barna (2023).




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×