Fótbolti

Rautt spjald kom ekki í veg fyrir að England færi áfram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Chloe Kelly skorar sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni.
Chloe Kelly skorar sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni. vísir/Getty

Evrópumeistarar Englands eru komnar í 8-liða úrslit á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi eftir sigur á Nígeríu í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum keppninnar í morgun.

Ekkert mark var skorað í leiknum, hvorki í venjulegum leiktíma né í framlengingunni og þurfti því að endingu að grípa til vítaspyrnukeppni.

Enska liðið var einum færri alla framlenginguna eftir að Lauren James fékk að líta rauða spjaldið á 87.mínútu fyrir að stíga ofan á leikmann Nígeríu.

Fyrstu tvær spyrnurnar í vítaspyrnukeppninni fóru framhjá markinu þar sem Georgia Stanway og Desire Oparanozie tóku keimlíkar spyrnur. Í kjölfarið af því sýndu þær ensku mikið öryggi á vítapunktinum á meðan Michelle Alozie þrumaði boltanum yfir markið í annarri spyrnu Nígeríu.

Fór að lokum svo að Chloe Kelly skaut Englandi áfram með fimmtu spyrnu Englendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×