Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Pakistan dæmdur í þriggja ára fangelsi

Eiður Þór Árnason skrifar
Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, ræddi við fréttamenn á dögunum.
Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, ræddi við fréttamenn á dögunum. Ap/K.M. Chaudary

Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, hefur verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar á grundvelli ásakana um spillingu.

Dómstóll í höfuðborginni Islamabad úrskurðaði hann sekan um að hafa ekki gefið upp tekjur sem hann hafði af sölu ríkisgjafa. Khan hafnar ásökununum og hyggst áfrýja niðurstöðunni.

Dómari fór fram á hann yrði umsvifalaust handtekinn og var hann fluttur af heimili sínu í gæsluvarðhald.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Khan tók við sem forsætisráðherra árið 2018 en var vikið úr stólnum eftir að vantraustsyfirlýsing var samþykkt á pakistanska þinginu í apríl á síðasta ári. Var hún lögð fram í kjölfar átaka hans við áhrifamikinn her landsins. 

Þúsundir stuðningsmanna handteknir

Þegar fangelsisúrskurðurinn var lesinn upp hóf hópur fólks, sem innihélt meðal annars saksóknara, að hrópa „Imran Khan er þjófur“ fyrir utan dómshúsið. Yfir hundrað dómsmál hafa verið höfðuð gegn Khan eftir að honum var vikið úr embætti. Hann segir ákærurnar vera af pólitískum toga. 

Khan var handtekinn í maí þegar hann mætti ekki fyrir dómara en var sleppt eftir að handtakan var úrskurðuð ólögmæt. Hann komst hjá því að vera handtekinn í marga mánuði og voru dæmi um að stuðningsfólk hafi háð bardaga við lögreglu til að forða honum frá gæsluvarðhaldi. 

Stjórnmálaflokkur Khan, Pakistan Tehreek-e-Insaf, hefur verið undir miklum þrýstingi frá ríkjandi stjórnvöldum. Margir hátt settir ráðamenn flokksins hafa hætt og þúsundir stuðningsmanna verið handteknir, sakaðir um að aðild að mótmælum sem brutust út í kjölfar þess að fyrrverandi forsætisráðherrann var handtekinn.

Khan hefur talað fyrir því að boðað verði til snemmbúna kosninga en dómur hans kemur í veg fyrir að hann bjóði sig fram. Þing verður rofið þann 9. ágúst og samkvæmt stjórnarskrá ættu kosningar þá að fara fram í nóvember.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×