Lífið

Renni­brautar­ferð lög­reglu­manns vekur kátínu net­verja

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Löggan renndi sér á ógnarhraða niður rennibrautina og skall í börmum brautarinnar.
Löggan renndi sér á ógnarhraða niður rennibrautina og skall í börmum brautarinnar.

Lögreglumaður í Boston slasaðist þegar hann renndi sér á ógnarhraða niður málmrennibraut í borginni. Myndband sem sýnir manninn þeytast út úr rennibrautinni og lenda á andlitinu hefur vakið mikla athygli.

Atvikið átti sér stað á leikvelli við ráðhústorgið í Boston á þriðjudag. 

Í myndbandi af atvikinu heyrast fyrst háværir dynkir innan úr henni, síðan heyrast viðstaddir hlæja og á endanum skýst lögreglumaðurinn út, skellur á börmum brautarinnar og lendir á andlitinu.

Maðurinn stendur síðan á fætur og segir „ó fokk“ á meðan það heyrist í bakgrunni „af hverju fórstu svona hratt?“ áður en myndbandið klárast.

Lögreglan í Boston hefur greint frá því að lögreglumaðurinn hafi fengið aðhlynningu vegna smávægilegra áverka en það væri í lagi með hann. Þá tók lögreglan sérstaklega fram að hann hafi borgað fyrir það með eigin sjúkratryggingu og hafi ekki misst neitt úr vinnu.

Fréttamiðlar í Boston segjast vita hver lögreglumaðurinn er ætla þó ekki gefa upp nafn hans þar sem atvikið er ekki til rannsóknar.

Föt lögreglumannsins líklega ábyrg fyrir hraðanum

Gríðarlegur hraði lögreglumannsins hefur vakið mikla athygli og hefur verið horft á myndbandið milljón sinnum á TikTok og sömuleiðis á X, sem áður hét Twitter.

Netverjar hafa verið duglegir að gera grín að lögreglumanninum, bæði með bröndurum og með því að breyta myndbandinu. Í útgáfunni hér fyrir neðan má sjá hvernig er búið að bæta prumpuhljóðum við.

Aðrir hafa birt myndbönd af sér renna sér niður rennibrautina til að sýna hvernig hún virkar venjulega. Borgarfulltrúinn Erin Murphy birti myndband af sér þar sem hún fór töluvert hægar en lögregluþjónninn missti reyndar skóinn sinn.

Huffington Post ræddi við Rhett Allain, eðlisfræðiprófessor við Southeastern Louisiana háskóla, um rennibrautir og hvað olli þessum mikla hraða mannsins.

„Venjulegt fólk, þegar þau fara niður rennibraut þá er allt í lagi með þau,“ sagði Allen og bætti við að hraði mannsins hefði eitthvað að gera með fötin sem hann var í.

Hann tók sem dæmi að ef fullorðinn einstaklingur og barn færu niður rennibrautina í eins fötum þá kæmu þau niður á sama tíma. Það er ekki massinn sem hefur áhrif á hraðann heldur tregðan.

„Tregða veltur á yfirborðunum tveimur sem snertast svo ef þú ert með málmrennibraut og hún snertir húð eða bómullarföt þá ertu með ákveðinn núningsstuðul,“ sagði Allain og bætti við „Og ef þú breytir efninu í eitthvað stíft, þá gæti það orðið mun sleipara.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband í fyrstu persónu af netverja renna sér niður rennibrautina.

s

Ítreka þurfi að rennibrautin sé bara fyrir börn

Málmrennibrautin er ný viðbót við leikvöllinn og var hluti af yfirhalningu sem átti sér stað í nóvember og kostaði 95 milljón Bandaríkjadala. 

Michelle Wu, borgarstjóri Boston, brást við atvikinu á þriðjudag og sagði að borgin þyrfti mögulega að sjá til þess að það væri skýrara að rennibrautin væri einungis fyrir börn.

Við innganginn að leikvellinum stendur á skilti að hann sé ætlaður fyrir börn á aldrinum tveggja til tólf ára.

„Ég veit ekki hverjar kringumstæðurnar eru eða hvað gerðist,“ sagði hún og bætti við „En ég ætla að athuga hvort það sé í lagi með lögreglumanninn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×