Erlent

Reiknað með löngum réttarhöldum í máli Heuermann

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Heuermann var handtekinn þann 13. júlí síðastliðinn.
Heuermann var handtekinn þann 13. júlí síðastliðinn. AP/James Carbone

Rex Heuermann, hinn meinti Gilgo Beach raðmorðingi, mætti í dómsal í skamma stund í gær. Saksóknarar afhentu lögmönnum hans átta terabæti af sönnunargögnum til yfirferðar.

Í frétt vefmiðilsins New York Post segir að Heuermann hafi komið fram í dómsal með „ískalt augnaráð, eins og hann væri að leita að einhverjum“. Saksóknarar í Suffolk-sýslu segja framkomu hans í gær marka upphafið á, að öllum líkindum, löngu sakamáli. 

„Þetta er þrettán ára gamalt mál, þannig að það er töluvert af upplýsingum, sönnunargögnum, ljósmyndum og skýrslum sem afhenda þarf verjandanum,“ sagði Raymond Tierney, héraðssaksóknari Suffolk-sýslu við fréttamenn miðilsins fyrir utan héraðsdóm í gær.

Fjölskyldumeðlimir fórnarlambanna voru viðstaddir í gær. Ása Guðbjörg Ellerup, sem þegar hefur sótt um skilnað frá honum, var ekki á staðnum. Greint var frá því í gær að þau hafa nú rætt saman eftir handtökuna, en ekki er vitað um hvað þau ræddu.

Heuermann hefur verið ákærður fyrir morð á þremur vændiskonum á árunum 2009 og 2010. Þá er hann að auki grunaður um að hafa komið að morði fjórðu konunnar árið 2007. 

Í húsleit á heimili Heuermann og Ásu fundust meðal annars 279 vopn. Að auki fannst hvelfing í kjallaranum. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um hvort mikilvæg sönnunargögn hafi fundist við leitina.


Tengdar fréttir

Sækir um skilnað frá grunuðum raðmorðingja

Íslensk kona sem gift er grunuðum raðmorðingja hefur sótt um skilnað. Ása Guðbjörg Ellerup er gift Rex Heuermann en hann hefur verið ákærður fyrir að myrða þrjár konur og er grunaður um að hafa myrt þá fjórðu í „Gilgo Beach morðunum“ svokölluðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×