Erlent

Grunur um að sólar­björn í kín­verskum dýra­garði sé maður

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Sólarbirnir eru minnstu birnir í heimi.
Sólarbirnir eru minnstu birnir í heimi. EPA

Forsvarsmenn dýragarðsins í kínversku borginni Hangzhou hafna því að birnir garðsins séu í raun fólk í búningum. Myndband náðist af einum sólarbirninum standa beinn á afturlöppunum eins og manneskja.

Myndband af sólarbirninum hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og hafa sumir netverjar efasemdir um að hann sé í raun björn. Frekar maður í búning.

Björninn, sem heitir Angela og er frá Malasíu, virðist reyna að eiga einhvers konar samskipti við gesti garðsins og sést veifa þeim. Breska blaðið The Guardian greinir frá þessu.

Talsmaður dýragarðsins hafnaði þessum orðróm í yfirlýsingu á laugardag og var hún birt í nafni Angelu. Benti Angela á að manneskja myndi ekki þola 40 gráðu sumarhitann klædd í þykkan feld eins og sólarbjörninn er með. Einnig að ríkisrekinn dýragarður myndi aldrei plata gesti sína.

„Þegar kemur að björnum þá er það fyrsta sem kemur upp í hugann hvað þeir eru stórir og kraftmiklir. En það eru ekki allir birnir risavaxnir og hættulegir. Við Malasíubirnir erum litlir, smæsti björn veraldar,“ segir Angela. Sólarbirnir eru um 1,3 metri á hæð standandi á afturfótunum.

Til að fullvissa almenning um að birnir garðsins væru raunverulegir var blaðamönnum boðið að koma að skoða þá í dag.

Hangzhou dýragarðurinn er ekki eini kínverski dýragarðurinn sem hefur legið undir grun um að bjóða upp á fölsuð dýr. Aðrir garðar hafa meðal annars verið sakaðir um að merkja hunda sem úlfa og asna sem sebradýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×