Erlent

Danir og Svíar í­huga bann á Kóran­brennum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mikil mótmæli gegn Kóranbrennum hafa verið í ríkjum þar sem Múslimar eru í meirihluta.
Mikil mótmæli gegn Kóranbrennum hafa verið í ríkjum þar sem Múslimar eru í meirihluta. AP

Utanríkisráðuneyti Danmerkur hefur gefið frá sér tilkynningu þar sem það segist íhuga að banna mótmæli sem ganga út á að brenna Kóraninn eða önnur trúarleg rit. Mótmælin ógni öryggi íbúa og skaði orðspor Danmerkur út á við. 

Ráðuneytið segir að þrátt fyrir mikilvægi tjáningarfrelsis ógni slík mótmæli öryggi Dana. Yfirvöld í Kaupmannahöfn hafi nú hug á að grípa inn í vegna skipulagðra mótmæla sem fela í sér slíkar brennur. Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar segir svipað ferli í gangi í Svíþjóð, samkvæmt frétt BBC.

Kastast hefur í kekki í vegna mótmæla öfgahægrimanna í Danmörku og Svíþjóð sem innihéldu svokallaðar Kóranbrennur, sem gengu út á það að eyðileggja ritið. 

Nokkur hundruð manns réðust til að mynda inn í sendiráð Svía í Bagdad, höfuðborg Írak, fyrr í mánuðinum, vegna skipulagðra mótmæla þar sem til stóð að framkvæma svokallaða Kóranbrennu. Kóranbrennurnar hafa komið niður á umsókn Svía í Atlantshafsbandalagið. 

Í kjölfarið kveiktu tveir danskir öfgahægrimenn í eintaki af Kórani og Írakska fánanum fyrir utan sendiráð Íraks í Kaupmannahöfn í síðustu viku. 

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ráðuneytið íhugi nú afskipti af mótmælum sem innihalda móðgandi skilaboð í garð þjóðerna, trúarbragða eða menningar. Að mótmælin gætu haft neikvæð áhrif á landið og öryggi íbúa þess. 

Þá segir að mótmælin hafi að auki slæm áhrif á orðspor ríkisins á alþjóðavísu. Danmörk hafi nú orð á sér fyrir að umbera móðgun og niðurlægingu á menningu, trúarbrögðum og hefðum annarra landa. 

Í annarri tilkynningu segir Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, að svipuðu ferli hafi nú verið hleypt af stað í nánu sambandi við Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. 


Tengdar fréttir

Hand­tóku meinta íslamista sem vildu hefna fyrir Kóranbrennu

Sænska leyniþjónustan handtók fimm menn sem hún grunar um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. Mennirnir eru sagðir hafa tengsl við Ríki íslams. Málið er eitt nokkurra sem sænsk yfirvöld segjast rannsaka í kjölfar umdeildra Kóranbrenna dansks hægriöfgamanns.

Bretar banna dönskum Kóran­brennu­manni að koma

Rasmus Paludan, stofnandi danska hægriöfgaflokksins Strangrar stefnu, fær ekki að koma til Bretlands. Hann ætlaði sér að brenna Kóraninn í bænum Wakefield í vikunni við upphaf föstumánaðar múslima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×