Innlent

Ókeypis íbúðalóðir á Hvammstanga

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, sem er að sjálfsögðu hæstánægð með íbúajölgunina á Hvammstanga.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, sem er að sjálfsögðu hæstánægð með íbúajölgunina á Hvammstanga. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Íbúum fjölgar og fjölgar á Hvammstanga enda tvö ný hverfi í byggingu. Ástæðan er meðal annars sú að lóðir á staðnum eru ókeypis, það er engin biðlisti í leikskólann og þá er næga atvinnu að hafa á Hvammstanga.

Hvammstangi í Húnaþingi vestra er einn af þessum fallegum stöðum úti á landi, sem er alltaf gaman að heimsækja. Í dag eru íbúar þar en 600 og þeim fjölgar ört því það er verið að byggja upp tvö ný hverfi á staðnum.

„Hér rjúka lóðirnar út og hafa gert undanfarin ár. Það er nýbúið að taka tvo grunna og búið að úthluta lóð fyrir raðhúsi, bara allt í gangi,” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Neðar í bænum við sjávarsíðuna er annað hverfi í uppbyggingu og þar er búið að úthluta öllum lausum lóðum.

Um 600 manns búa á Hvammstanga í dag. Allar íbúðalóðir eru ókeypis. Þar er líka næga atvinnu að hafa og engin biðlisti á leikskóla staðarins.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Engu að síður þá vantar húsnæði og við þurfum að spýta í lófana þar og erum að vinna samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins í þá átt. Lóðirnar eru ekki seldar því þær eru í eigu sveitarfélagsins og greidd lóðarleiga , sem er mjög hófleg. Þannig að það hjálpar til við húsbyggingar að þú þarft ekki eyða milljónum og jafnvel stundum tugum milljóna í lóðir,” segir Unnur Valborg.

En það er ekki nóg með að lóðirnar kosti ekkert á Hvammstanga því þar er heldur engin biðlisti með börn í leikskóla.

„Hér er bara rosalega gott að búa og íbúakannanir hafa sýnt það að fólk á Hvammstanga er einna ánægðast með sveitarfélagið sitt á landinu öllu. Hér er öflugt menningarlíf, hér er hægt að fá atvinnu og bara gott fólk, sem býr hérna,” segir kampakátur sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Hvammstangi er vinsæll staður til að búa á.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×