Lífið

Sinéad O’Connor er látin

Árni Sæberg skrifar
Sinéad O'Connor á sviði árið 2013.
Sinéad O'Connor á sviði árið 2013. Caitlin Mogridge/Getty

Írska stórsöngkonan Sinéad O’Connor er látin, aðeins 56 ára að aldri.

Írska dagblaðið Irish Times greinir frá andláti hennar en ekki hefur verið greint frá dánarorsök hennar. 

„Það er með mikilli sorg sem við tilkynnum andlát okkar ástkæru Sinéad. Fjölskylda hennar og vinir eru í molum vegna þess og óska eftir að friðhelgi einkalífs þeirra verði virt á þessum erfiða tíma,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu hennar.

Hún gaf alls út tíu breiðskífur og öðlaðist heimsfrægð árið 1990 þegar hún gaf út ábreiðu af Nothing Compares 2 U eftir Prince. Lagið var efst á lista Billboard yfir smáskífur ársins árið 1990 og má heyra í spilaranum hér að neðan:

Nokkuð fljótt fór þó að halla undan fæti hjá henni árið 1992 eftir að hún reif mynd af Jóhannesi Páli öðrum páfa í beinni útsendingu í skemmtiþættinum Saturday Night Live í mótmælaskyni. Hún fékk slæma útreið í fjölmiðlum vestanhafs og var til að mynda sett í bann af sjónvarpsstöðinni NBC. Hún hélt þó áfram að gefa út tónlist og koma fram opinberlega allt til ársins 2021.

O’Connor lætur eftir sig þrjú börn. Sonur hennar Shane O’Connor féll fyrir eigin hendi í fyrra aðeins sautján ára að aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×