Fótbolti

„Það bara gerir ekkert fyrir mig að hafa spilað vel og tapað 2-0“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Óskar Hrafn var svekktur með frammistöðu sinna manna í kvöld
Óskar Hrafn var svekktur með frammistöðu sinna manna í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum hundsvekktur eftir tap hans manna gegn FCK í kvöld í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið þurfi að bæta sig ef það ætlar sér að taka næsta skref í Evrópu.

„Ég met þetta bara sem svo að akkúrat núna erum við bara ekki komnir lengra en þetta. Við spilum á móti gæðaliði og gerum tvenn varnarmistök í fyrri hálfleik sem kosta dýrt. Við spilum í gegnum þá eins og að drekka vatn en erum ekki nógu góðir á síðasta þriðjungi. Ef við ætlum að taka skref í Evrópu þá þurfum við að vera betri í þessum tveimur hlutum.“ sagði Óskar Hrafn, þjálfari Breiðabliks, að leik loknum.

Þjálfarinn segir einvígið alls ekki búið og vonar að liðið geri betur í seinni leik einvígisins. Hann segir þó að spilamennskunni þurfi að fylgja einhver mörk ef liðið ætli sér að ná árangri.

„Sorglegt að við höfum ekki nýtt betur möguleikana sem við fengum og ekki varist betur þegar á reyndi en mér líður ekki eins og þetta einvígi sé búið. Mér fannst við spila vel á löngum köflum, fórum í gegnum þá en þegar þú skorar ekki þá telur það lítið á þessu stigi keppninnar.“

Óskar var svo spurður út í þróun liðsins síðustu ár og hvort liðið sé komið lengra en þegar hann tók við því árið 2020.

„Erfitt að segja að þróunin sé ekki komin lengra, ég meina hversu langt á hún að vera komin? Ég hefði samt viljað sjá okkur vera betri í þeim atriðum sem ég taldi upp. Þróunin er komin langt það er alveg ljóst... en við erum greinilega ekki komnir þangað að við getum tekið FCK og unnið þá.“

Þjálfarinn sagðist hundfúll með niðurstöðuna og sagði það ekki skipta máli hvernig liðið spilaði þegar niðurstaðan væri tap.

„Mér fannst við ekki þurfa að tapa þessum leik, ég átta mig alveg á því að FCK er frábært lið og allt það en það bara gerir ekkert fyrir mig að hafa spilað vel og tapað 2-0“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×