Enski boltinn

Ældi í handtösku mömmu Grealish og ætlar að kaupa nýja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúben Dias í leik gegn Íslandi.
Rúben Dias í leik gegn Íslandi. Vísir/Hulda Margrét

Rúben Días, miðvörður Evrópu-, Englands- og bikarmeistara Manchester City, missti sig örlítið í gleðinni eftir að City urðu Evrópumeistarar. Hann missti sig örlítið í gleðinni sem endaði með því að hann ældi í handtösku Karen Grealish, móður Jack Grealish.

Eftir að Man City sigraði Inter Mílanó í úrslitum Meistaradeildar Evrópu og tryggði sér þar með þrennuna þá var eðlilega fagnað langt fram eftir nóttu. Sumir leikmenn Man City eru ekki mikið fyrir áfengi en gerðu undantekningu þetta kvöld. Dias var einn þeirra.

Markvörðurinn Ederson henti samherja sínum undir rútuna þegar hann sagði að Dias hefði fengið sér tvö skot af áfengi sem endaði með því að handtaskan hennar Karenar varð að ælupoka.

Leikmenn Man City hafa nú snúið aftur til æfinga og virðist sem Dias ætli að bæta Karen upp skaðann og splæsa í nýja tösku handa henni við tækifæri. Svo herma allavega fréttir Daily Mirror og fleiri miðla á Bretlandseyjum.

Man City hóf tímabilið 2023/2024 með sigri á Yokohama F. Marinos frá Japan í markaleik, lokatölur 5-3. Erling Braut Håland skoraði tvö á meðan John Stones, Julian Álvarez og Rodri skoruðu eitt hver. 

Lærisveinar Pep Guardiola mæta svo Bayern München og Atlético Madríd áður en þeir keppa við Arsenal í hinum árlega leik um Samfélagsskjöldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×