Enski boltinn

Sjáðu mörkin þegar Man United lagði Arsenal þægi­lega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rauðu djöflarnir lögðu Skytturnar.
Rauðu djöflarnir lögðu Skytturnar. Manchester United

Gott gengi Manchester United á undirbúningstímabilinu heldur áfram. Liðið vann þægilegan 2-0 sigur á silfurliði ensku úrvalsdeildarinnar frá því á síðustu leiktíð, Arsenal, í nótt en bæði lið eru nú stödd í æfingaferð í Bandaríkjunum.

Bæði lið stilltu upp svo gott sem sínum bestu liðum en í lið Arsenal vantaði þó Oleksandr Zinchenko og Gabriel Jesus. Þá var Rúnar Alex Rúnarsson á varamannabekknum. 

Hjá Man United var André Onana, markvörður, fjarverandi en nýmættur til Bandaríkjanna eftir að ganga í raðir félagsins frá Inter. Einnig vantaði þá Diogo Dalot, Casemiro, Marcus Rashford og Anthony Martial í byrjunarlið Man United. 

Hvað leikinn varðar þá skoraði Man United tvö mörk á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleik og gerði út um leikinn. Fyrirliðinn Bruno Fernandes kom Rauðu djöflunum yfir eftir hálftímaleik. Hann fékk boltann frá Kobbie Mainoo kom sér í fína skotstöðu fyrir utan teig og lét vaða. Skotið var allt í lagi en Aaron Ramsdale hefði að öllum líkindum átt að gera betur.

Sjö mínútum síðar mislas William Saliba langa sendingu frá títtnefndum Mainoo og allt í einu var Jadon Sancho sloppinn í gegn. Færið var þröngt en Sancho kláraði frábærlega og kom Man Utd 2-0 yfir.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og raunar urðu þau ekki fleiri í leiknum. Erik ten Hag, þjálfari Man Utd, nýtti svo bekkinn sinn til hins ítrasta og gerði 11 breytingar í leiknum á meðan Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, gerði átta.

Þar sem leikið var í Bandaríkjunum var eðlilega farið í vítaspyrnukeppni að leik loknum, þar vann Man United 5-3 sigur.

Man United hefur nú unnið alla þrjá leiki sína á undirbúningstímabilinu og á enn eftir að fá á sig mark. Arsenal hefur á sama tíma unnið einn, gert tvö jafntefli og tapað einum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×