Golf

Harman marserar áfram á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brian Harman er í góðri stöðu á Opna breska meistaramótinu í golfi.
Brian Harman er í góðri stöðu á Opna breska meistaramótinu í golfi. getty/Gregory Shamus

Bandaríkjamaðurinn Brian Harman er með þriggja högga forystu á Opna breska meistaramótinu í golfi. Annar keppnisdagur mótsins er hafinn.

Harman hefur leikið fjórum höggum undir pari í dag, ekki tapað höggi og er samtals átta höggum undir pari. Hann fékk meðal annars fjóra fugla í röð á holum 2-5 í dag. 

Harman er þremur höggum á undan Englendingnum Tommy Fleetwood og suður-afríska áhugamanninum Christo Lamprecht. Hvorugur þeirra hefur hafið leik í dag. Antoine Rozner frá Frakklandi er svo fjórði á fjórum höggum undir pari.

Hinn 36 ára Harman lenti í 6. sæti á Opna breska á síðasta ári. Besti árangur hans á risamóti er 2. sætið á Opna bandaríska fyrir sex árum.

Norðmaðurinn Viktor Hovland hefur leikið á tveimur höggum undir pari í dag og er í 5. sæti ásamt fimm öðrum kylfingum.

Rory McIlroy, sem þykir mjög líklegur til afreka á Opna breska, er á einu höggi undir pari og í 18. sæti.

Fylgjast má með beinni útsendingu frá Opna breska á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×