Erlent

Skemmti­ferða­skip verði bönnuð í mið­bæ Amsterdam

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Innan tíðar munu skip á borð við þetta ekki fá að koma til hafnarinnar í miðbæ Amsterdam.
Innan tíðar munu skip á borð við þetta ekki fá að koma til hafnarinnar í miðbæ Amsterdam. Vísir/Getty

Borgaryfirvöld í Amsterdam í Hollandi hafa ákveðið að loka fyrir komur skemmtiferðaskipa til miðbæjarins.

Markmiðið er að draga úr fjölda ferðamanna í miðbænum og einnig að draga úr mengun. Tillagan var samþykkt í borgarstjórn Amsterdam og segja flutningsmenn að skemmtiferðaskip samræmist ekki markmiðum borgarinnar um sjálfbærni.

Þetta þýðir að aðalkomustaður skemmtiferðaskipa til Amsterdam, sem er í grennd við aðaljárnbrautarstöð borgarinnar mun loka. Óljóst er þó hvenær af þeirri lokun verður en málið á eftir að koma inn á borð framkvæmdastjórnar borgarinnar. Í kjölfarið á ákvörðun borgarstjórnarinnar sá hafnarstjórinn í Amsterdam sig tilneyddan til að vekja athygli á því að enn sé ekkert ákveðið með tímaramma lokunarinnar og að engin röskun verði á starfsemi hafnarinnar á næstunni. 

Í Amstedam, eins og sumstaðar annarsstaðar hafa skemmtiferðaskipin orðið að einskonar tákni fyrir offjölgun ferðamanna og var tillagan samþykkt með miklum meirihluta í borgarstjórninni. Um tuttugu milljónir manna koma til Amsterdam á hverju ári og margir borgarbúar eru orðnir langþreyttir á troðningnum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×