Fótbolti

Mark­vörður Evrópu­meistaranna virki­lega sár út í Nike

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mary Earps er markvörður og varafyrirliði enska landsliðsins á HM í fótbolta 2023.
Mary Earps er markvörður og varafyrirliði enska landsliðsins á HM í fótbolta 2023. Getty/Justin Setterfield

Knattspyrnuaðdáendur geta ekki fest kaup á búningi eins af lykilmönnum Evrópumeistara kvenna í knattspyrnu. Hún er sár og svekkt með stöðuna. 

Mary Earps var ein af hetjum enska landsliðsins þegar liðið vann Evrópumeistaratitilinn í fyrra. Earps var valin markvörður mótsins og er áfram aðalmarkvörður enska landsliðsins á heimsmeistaramótinu sem er hafið.

Hin þrítuga Earps er ekki aðeins markvörður liðsins heldur er hún einnig varafyrirliði.

Það mun þó líklega enginn af stuðningsmönnum enska landsliðsins sjást ganga um í búningi hennar þótt að þeir séu miklir aðdáendur.

Ástæðan er að Nike ákvað að framleiða ekki markmannsbúninginn hennar heldur aðeins treyjur útileikmanna enska landsliðsins.

„Ég get ekkert fegrað þetta á nokkurn hátt og ég ætla ekki að reyna það. Þetta eru mjög mikil vonbrigði og í raun virkilega sárt fyrir mig,“ sagði Mary Earps við blaðamenn á hóteli enska landsliðsins í Brisbane.

„Ég hef verið að berjast fyrir þessu á bak við tjöldin og hef verið að reyna að leita uppi réttu boðleiðirnar,“ sagði Earps.

„Það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki rætt þetta opinberlega fyrr þó að ég hafi verið oft spurð út í stöðu mála. Ég hef reynt allt til að finna lausn hjá enska sambandinu og hjá Nike. Því miður þá er það orðið morgunljós að það gengur ekki upp. Það verður ekki ásættanleg lausn fyrir unga krakka þarna úti,“ sagði Earps.

„Þetta er mjög sárt fyrir mig persónulega og líka að undanfarna tólf mánuði hefur verið mikil aukning í áhuga krakka að reyna fyrir sér í marki. Mín eigin fjölskylda, vinir og ættingjar munu ekki geta klæðst treyjunni minni,“ sagði Earps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×