Innlent

„Myndi ekki mæla með þessari leið við ó­­­vant göngu­­fólk“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tómas hefur gengið um svæðið margoft, meðal annars árið 2021 þegar hann gekk að eldgosinu í Geldingadölum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Tómas hefur gengið um svæðið margoft, meðal annars árið 2021 þegar hann gekk að eldgosinu í Geldingadölum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Vísir/Vilhelm

Tómas Guð­bjarts­son, göngu­garpur og hjarta-og lungna­skurð­læknir, segist ekki mæla með því fyrir hvern sem er að fara Vig­dísar­valla­leið að gos­stöðvunum við Litla-Hrút. Opnað var fyrir um­ferð um leiðina í dag.

Tómas ræddi málið í Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni. Til­efnið er á­kvörðun lög­reglu um að opna fyrir um­ferð um veginn en lög­regla hefur tekið fram að vegurinn henti ekki fólks­bílum. Þá sé lítið sem ekkert GSM sam­band og víðast hvar við veginn ekki tetra sam­band.

„Ég hef gengið þetta svæði sundur og saman, bæði áður en það fór að gjósa og eftir,“ segir Tómas sem jafn­framt hefur tekið þátt í að kort­leggja göngu­leiðir á svæðinu með Ferðafé­lagi Ís­lands.

Flóknari leið

Hann segir Vig­dísar­valla­leiðina klár­lega styttri en aðrar leiðir að gosinu. „Þetta er gríðar­lega fal­leg leið en hún er mjög við­kvæm og það veldur mér á­hyggjum að það er ekki búið að stika hana og maður hefur á­hyggjur af því að fólk æði þarna yfir mosa án þess að fylgja þessari leið.“

Leiðin sé tölu­vert meira krefjandi og flóknari en Mera­dals­leiðin sem opin hefur verið hingað til. Farið sé yfir hrygg sem heitir Núps­hlíðar­háls.

„Hann er upp í næstum 300 metra hæð og þetta er meira klöngur. En ég neita því ekki að þetta er mjög fal­leg leið. Ég sé hins vegar fyrir mér að verði mikil um­ferð þarna af bílum geti verið erfitt að mætast og það mætti skoða það að hafa veginn bara opinn í eina átt, að maður fari inn á þessa leið fyrir norðan Kleifar­vatn og komi þá út hina leiðina, inn á Suður­strandar­veg.“

Verði að hafa fleiri leiðir í boði

Tómas segir að sér þyki já­kvætt að hafa fleiri leiðir í boði að gos­staðnum við Litla-Hrút. Vind­átt eigi eftir að breytast og þá sé mikil­vægt að fólk sé ekki með gös úr gosinu í fanginu. Ekki verður björgunar­sveitir á svæðinu á Vig­dísar­valla­leið.

Mælirðu með því að ó­vant göngu­fólk fari þessa leið?

„Nei, ég myndi ekki mæla með þessari leið við ó­vant göngu­fólk. Ég myndi ekki gera það. Þetta er allt dá­lítið snúið. Hin leiðin frá Mera­dölum er dá­lítið löng en hún er mjög örugg og það er mjög auð­velt að koma fólki til bjargar ef ein­hver tognar eða slasast. Gallinn hefur verið að ef það er norðan­átt hafa gös borist yfir leiðina og út­sýnið ekki alltaf stór­kost­legt.“

Hann segir að náttúran í kringum Vig­dísar­velli sé ó­trú­lega fal­leg. Hún sé hins vegar gríðar­lega við­kvæm og því skipti öllu máli að fólk haldi sig við slóða en æði ekki beina sjón­línu yfir við­kvæman gróðurinn. Mikil­vægt sé að fólk taki með sér kort og GPS-tæki fyrir þá sem slíkt eiga.

„En aðal­lega bara að vera ekki að fara þarna nema í góðu veðri. Þetta er til dæmis ekki góð göngu­leið í vestan­átt vegna þess að þá berst reykurinn þangað og gösin,“ segir Tómas sem bætir því við að öruggast sé að halda sig við Mera­dala­leið, eða að prófa leið A en þá halda sig utan hættu­svæðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×